Frestur kröfuhafa Reykjaneshafnar til að taka afstöðu til tillögu um fjárhagslega endurskipulagningu hennar hefur verið framlengdur til 18. apríl. Í tillögunni, sem er kölluð „bíða og sjá“-tillagan, felst að kröfuhafarnir endurfjármagni núverandi skuldir hafnarinnar að hluta til með löngu jafngreiðslubréfi, en að hluti skuldanna verði settur á styttra skuldabréf sem fái ekki þjónustu fyrr en eftir tvö ár.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands vegna þessa segir að Reykjaneshöfn „mun hafa burði til að standa við skilmála bréfanna ef þróunin á næstu árum verður á þann veg [...] að kísilver verði að veruleika með þeim áhrifum á atvinnuuppbyggingu á svæðinu sem vænst er að því fylgi“. Reykjaneshöfn skuldaði 5,6 milljarða króna 1. mars síðastliðinn. Þar af nema skuldir við lánastofnanir og lífeyrissjóði 3,7 milljarða króna. Framlegð hafnarinnar á árinu 2010 voru 65 milljónir króna.