Reykjavík er 14. dýrasta borg í heimi að mati The Economist en það kemur fram í alþjóðlegri könnun um framfærslukostnað sem blaðið stóð fyrir.

Singapúr er talin dýrasta borgin fimmta árið í röð en í 2.-3. sæti eru París og Zurich í Sviss. Singapúr er 16% dýrari heldur en New York borg sem kemst ekki í efstu tíu sætin í ár. Fjórða dýrasta borgin er Hong Kong og sú fimmta er Osló.

Economist segir að lækkun dollarsins gagnvart öðrum myntum geri það að verkum að engin bandarísk borg er meðal tíu dýrustu borga í heimi en New York og Los Angeles eru í 13. og 14. sæti. Þá segir einnig að óvissa vegna Brexit hafi valdið veikingu á gengi breska pundsins og fyrir vikið hafi London og Manchester færst neðar á listanum. London er talin 30. dýrasta borgin og hefur ekki verið neðar á listanum síðustu tvo áratugi en Manchester er í 56. sæti.