Listi Global Destination Sustainability Index (GDS-Index) fyrir árið 2018 hefur verið opinberaður og samkvæmt honum uppfyllir Reykjavík nú 89% markmiða um sjálfbærni Ráðstefnuborga. Reykjavík er í þriðja sæti listans eins og undanfarin tvö ár þrátt fyrir að hafa bætt einkunn sína um ein sjö prósentustig á milli ára.

Norrænar borgir eru áberandi á listanum í ár og skipa sjö efstu sæti hans. Gautaborg er í fyrsta sæti eins og undanfarin ár en bilið á milli hennar og Reykjavíkur hefur þó minnkað hratt.

GDS-Index mælir meðal annars sjálfbærni innviða sem tengjast ráðstefnu- og fundarhaldi, umhverfisstefnu borganna sjálfra og frumkvæði fyrirtækja sem þjónusta ráðstefnu- og fundargesti í umhverfismálum (í tilfelli Reykjavíkur eru það aðildarfélagar Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur – Meet in Reykjavík). Horft er til umhverfisvottunar, umfangs endurvinnslu, þekkingarmiðlunar og samfélagslegra áhrifa.

„Við tökum þennan lista alvarlega,“ segir Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík. „Þetta er ágætur mælikvarði á það hvernig okkur gengur að innleiða- og vinna samkvæmt umhverfisstöðlum. Það hefur enginn efni á því að sitja hjá þegar kemur að umhverfisvernd.“

Markmið vísitölunnar, sem er sú eina sinnar tegundar í heiminum, er að sýna kaupendum ráðstefnu-, viðskipta- og hvataferðaþjónustu hvort og þá hversu mikla áherslu einstaka borgir, áfangastaðir og helstu þjónustuaðilar leggja á verndun og sjálfbærni umhverfisins.