Samkvæmt nýrri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar sem lögð var fram sem frumvarp í dag mun rekstur borgarinnar snúast við á næsta ári.

Í fjárhagsáætluninni segir að markmiðið sé að grunnrekstur borgarinnar verði sjálfbær. Það myndi skapa svigrúm til fjárfestingar og losa um þörf til skuldsetningar.

Rekstur á A-hluta árið 2016 á samkvæmt áætluninni að skila 567 milljón króna afgangi, og rekstur samstæðunnar AB-hluta verði með 8,1 milljarði króna afgangi.

Ráð er gert fyrir því að Orkuveita Reykjavíkur fari að skila hóflegum arði árið 2018 og að heildarskuldir samstæðunnar lækki um einhverja 12,8 milljarða króna á næstu fimm árum.

Fjárfestingar borgarinnar á næstu fimm árum munu nema einhverjum tíu milljörðum. Þá verður byggð útisundlaug við Sundhöll Reykjavíkur, Borgarbókasafnið við Tryggvagötu verður stækkað, og íþrótta- og menningarmiðstöð verður byggð í Úlfarársdal.