Borgarráð samþykkti í gær að leysa til sín lóð Ungmennafélags Íslands við Tryggvagötu 13. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag þar sem haft er eftir Degi B. Eggertssyni, formanni borgarráðs, að lóðin sé mjög verðmæt og mikilvæg við uppbyggingu miðborgarinnar. Um er að ræða lóð sem stendur við hlið Borgarbókasafnsins og er nú notuð sem bílastæði.

Dagur segir jafnframt að óneitanlega sé umrædd lóð ein þeirra sem horft hafi verið til til að efna almennan leigumarkað á Íslandi. Reykjavíkurborg samþykkti jafnframt í gær að skipa starfshóp um húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar sem meðal annars er ætlað að efla almennan leigumarkað.