Kostnaður við rekstur A-hluta Reykjavíkurborgar heldur áfram að aukast og hefur aldrei verið eins hár. A-hluti er grunnþjónusta Reykvíkinga að viðbættum Bílastæðasjóði og Eignasjóði. Samkvæmt árshlutauppgjöri, sem kom út fyrir skemmstu, munu útgjöld A-hluta aukast um rúma 3,2 milljarða króna umfram verðlag á milli 2014 og 2015. Útgjöld þessa árs eru framreiknuð miðað við fyrri helming ársins. Það er aukning upp á 3,72% á einu ári. Niðurstaðan er tap upp á tæplega 6,1 milljarð króna, ef fram fer sem horfir.

Frá byrjun árs 2010 hafa útgjöld borgarinnar aukist úr rúmum 71,1 milljarði króna á ári í tæpa 90,7 milljarða króna miðað við fyrrnefndar forsendur, sem er aukning um meira en 19,5 milljarða króna í árlegum rekstrargjöldum eða um 27,45%. Uppsafnað tap á þessu tímabili mun í lok þessa árs að óbreyttu nema 7,3 milljörðum króna.

Rétt er að taka fram að útgjöld vegna málefna fatlaðra, sem fluttust frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 eru tekin með í reikninginn en þau nema tæpum sex milljörðum króna árlega og eru því um 6,6% af heildarútgjöldum, auk þess sem íbúum hefur fjölgað um 2,4%. Útgjöld Reykjavíkurborgar hafa eftir sem áður aukist um 18,45% umfram verðlag, íbúafjölgun og útgjaldaaukningu vegna málefna fatlaðra frá árinu 2010.

Kennitölur sýna versnandi rekstur

Í fyrri úttekt Viðskiptablaðsins frá 7. maí síðastliðnum um fjárhag Reykjavíkurborgar var greint frá því að borgaryfirvöld hafa fengið viðvaranir frá fjármálaskrifstofu borgarinnar vegna hættumerkja í rekstrinum, þegar ársreikningi fyrir seinasta ár var skilað. Viðvaranir fjármálskrifstofunnar beindust fyrst og fremst að útgjöldum, en þar var til að mynda bent á að laun og annar rekstrarkostnaður væru orðin 123% af skatttekjum.

Kennitölur úr rekstri Reykjavíkurborgar
Kennitölur úr rekstri Reykjavíkurborgar
© Jóhannes Stefánsson (VB MYND/JS)

Samkvæmt árshlutareikningi er þetta hlutfall komið í 129% á fyrri helmingi ársins 2015, bæði vegna launahækkana hjá borginni og fjölgunar stöðugilda.

Í úttekt í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag er farið yfir rekstur á grunnþjónustu Reykjavíkurborgar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .