Reykjavíkurborg gerir kröfu um að fá alls um 6,3 milljarða króna greidda úr þrotabúi Landsbankans. Skilanefnd bankans hefur þegar hafnað kröfu upp á 1,1 miljarð króna en á eftir að taka afstöðu til annarra krafna borgarinnar. Þetta kemur fram í kröfulýsingarskrá Landsbankans sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Samkvæmt nýjasta mati skilanefndar Landsbankans er vonast til að um 94 prósent fáist upp í forgangskröfur. Þær eru samtals 1.273,5 milljarðar króna og er langstærstur hluti þeirra vegna breskra og hollenskra innstæðueigenda sem áttu fé á Icesave-reikningum bankans. Engar af fimm kröfum Reykjavíkurborgar eru forgangskröfur og því afar ólíklegt að eitthvað fáist upp í þær.

Kröfur Reykjavíkurborgar samkvæmt kröfulýsingarskrá Landsbankans eru eftirfarandi:

1.109.166.843 krónur með vísun í  111. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Kröfunni var hafnað.

1.402.572.940 krónur með vísun í 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Afstaða ekki tekin.

643.460.326 krónur með vísun í 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Afstaða ekki tekin.

1.793.216.415 krónur með vísun í 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Afstaða ekki tekin.

1.331.540.822 krónur með vísun í 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Afstaða ekki tekin.

Samtals kröfur: 6.279.957.346 krónur.