Mörgum bregður þegar þeir skoða lista The Economist yfir dýrustu borgir í heimi og sjá Seoul í Suður Kóreu í níunda sæti listans. Stórborgin hefur vaxið hratt og þétt með aukinni alþjóðavæðingu. Verðlag hefur rokið upp á síðustu árum og því hafa borgarbúar og ferðamenn svo sannarlega fengið að kynnast. Borgin er einungis einu sæti fyrir ofan Los Angeles í Bandaríkjunum.

Kaupmannahöfn er í áttunda sæti og hefur haldist þar um nokkuð skeið. Borgin telst frekar dýr og þá sérstaklega ef miðað er við laun á svæðinu. New York toppar þó Kaupmannahöfn og er því í sjöunda sæti yfir dýrustu borgir heims. Dollarinn hefur styrkst töluvert undanfarið og hefur verðlag borgarinnar haldið áfram að rjúka upp.

London er þó örlítið dýrari en New York og má rekja það til fasteignaverðs á svæðinu. Borgin hefur þó oftar verið ofar á listanum. Fall pundsins og óvissan sem hefur skapast í kring um úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um framtíð Evrópusamstarfsins, hefur valdið þessari þróun. París, höfuðborg Frakklands, hefur eignað sér fimmta sætið. Hagfræðingar The Economist segja borgina allt of dýra og telja að einu hagstæðu kaupin felist í sígarettum og áfengi.

Í Sviss er almennt dýrt að búa, það er ekkert leyndarmál. Þrátt fyrir það er höfuðborg landsins ekki á listanum. Fjórða sætið er þó frátekið fyrir Genf. Borgin er þekkt sem heimahöfn ýmissa alþjóðlegra stofnanna og fjármálafyrirtækja. Hong Kong er þó örlítið dýrari en Genf og hefur stórborgin rokið upp um sjö sæti á aðeins einu ári. Hækkunina má aðallega rekja til hækkana á fasteignaverði.

Næst dýrasta borg heims er Zurich í Sviss, en hún er einnig stærsta borg þjóðarinnar. Þar er að finna helstu umferðarmiðstöðvar landsins. Dýrasta borg í heimi að mati The Economist er borgríkið Singapúr. Singapúr hefur trónað á toppnum um nokkuð skeið og hefur þróast verulega á örstuttum tíma. Borgin er að öllum líkindum einnig ein sú hreinasta í heimi.

Reykjavík er samkvæmt listanum í 29 sæti og því alveg í hælunum á Mílan og Washington DC. Amman og München teljast örlítið ódýrari en Reykjavík.