Talsverð umræða hefur sprottið upp tengd því hversu afskaplega dýr borg Reykjavík er orðin - og hvað Ísland sé dýrt land almennt - í sömu andránni er oftast rætt er um styrkingu krónunnar.Verðlag á Íslandi skiptir þó gífurlega miklu máli fyrir þá ferðamenn sem að koma hingað til landsins og halda uppi þeirri atvinnugrein sem að hefur sprungið út á síðustu misserum, ferðaþjónustunni.

Í þesu samhengi getur reynst þrautinni þyngra að bera saman borgir og ríki. Hagfræðideild Landsbankans gerir þó sitt besta í nýrri Hagsjá bankans þar sem kemur meðal annars fram að Reykjavík er orðin dýrari en New York og dýrasta borg Norðurlandanna. Þar er notað gagnagrunn Numbeo sem skoðar ýmsar hagstærðir og ber saman milli landa. Aðferðafræðin er að setja kostnað í New York sem 100 á hverjum tíma og miða aðrar borgir við þá tölu.

Samkvæmt nýjustu tölum Numbeo er Reykjavík í 8. sæti meðal þessara borga hvað hæstan framfærslukostnað varðar. Þá er Zürich í Sviss dýrasta borgin á listanum en þar er framfærslukostnaðurinn 50% hærri en í New York. Þar á eftir kemur borgin Hamilton í Bermúda. Í Reykjavík er framleiðslukostnaðurinn ríflega 30% hærri en í New York og síðan eru fjórar norskar borgir í tíunda til þrettánda sæti.

Dýrasta höfuðborgin

Ef litið er til höfuðborga Norðurlandanna kemur skýrt fram að Reykjavík er langdýrasta borgin og hafa Reykjavík og Osló talsverða sérstöðu að því er kemur fram í greiningunni. Í hinum þremur höfuðborgum Norðurlandanna er framleiðslukostnaðurinn lægri en í New York.

Reykjavík hefur klifið listann statt og stöðuglega síðastliðin ár, en fyrir sex árum, árið 2011, þá var Ísland í 61. sæti sama lista. Síðan hefur borgin klifrað upp listann og var í 28. sæti árið 2016 og er í 8. sæti miðað við nýjustu tölur. Samanburður við New York breyttist gífurlega á milli áranna 2016 og 2017, en Reykjavík var 4% ódýrari 2016 en er 31% dýrari í dag.

Dýr matvara og dýr veitingahús

Matvaran er dýr í Reykjavík miðað við útreikninga Numbeo. Reykjavík var í 8. sæti á listanum hvað verð á matvöru varðar, og er dýrust Norðurlandaborganna. Skammt á eftir kom Osló í 13. sæti og Stokkhólmur fylgir langt eftir í 68. sæti.

Sömu sögu má segja um veitingahúsin, en þegar verðlagið á þeim er skoðað sést að Hamilton í Bermúda er dýrasta borgin, en þar á eftir kemur borgin Zug í Sviss. Þar á eftir koma Stavanger og svo Reykjavík. Af efstu 13 sætunum eru allar borgir ýmist á Íslandi, Noregi eða Sviss að undanskilinni borginni Hamilton sem er í Bermúda.  Landsbankinn setur þó þann fyrirvara að tölur af þessu tagi eru auðvitað ekki mjög nákvæm vísindi, þó að þær gefi okkur vissulega vísbendingu um hvernig staða Reykjavíkur birtist þeim sem skoða heimasíður á borð við Numbeo.