*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Innlent 4. febrúar 2020 17:55

Reykjavík ráði meira um Sorpu

Borgarstjórn vill endurskoðun stofnsamninga byggðasamlaga. Sjálfstæðismenn gagnrýndu ábyrgð á 1,5 milljarða láni til Sorpu.

Ritstjórn
Eyþór Arnalds er leiðtogi Sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur sem lagði fram tillöguna um að ábyrgð borgarinnar á byggðasamlögum eins og Sorpu sé endurspegluð í áhrifum á stjórn þess.
Aðsend mynd

Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að beina því til eigendahóps SORPU bs. að beita sér fyrir að breytingar verði gerðar á stofnsamningi byggðasamlagsins vegna samsetningu stjórnarinnar var samþykkt á fundi borgarstjórnar að framlagðri breytingartillögu meirihlutans með 20 atkvæðum, en þrír borgarfulltrúar sátu hjá.

Breytingartillagan fól meðal annars í sér útvíkkun tillögunnar þannig að hún næði til allra byggðasamlaga sem Reykjavíkurborg á aðild að.

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja breytingartillögu þessa í því trausti að aðkoma borgarinnar að stjórnum SORPU og Strætó, sé sem næst því að vera í hlutfallslegu samræmi við eignarhlut borgarinnar,“ sagði Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins þegar að hann las upp bókun við málið í borgarstjórn.

„Reykjavíkurborg ber höfuð ábyrgð á SORPU. Aðkoma borgarinnar verður að endurspegla þá ábyrgð. Sjálfstæðismenn vilja sjá niðurstöðu í þessu máli fyrir vorið. Eigi síðar en 1. maí nk. Reykjavíkurborg hefur aðeins einn af sex fulltrúum í stjórn SORPU og Strætó, en fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa margsinnis bent á þá staðreynd að ekki sé hægt að sætta sig við það, ekki síst með hliðsjón af ábyrgðum borgarinnar gagnvart lántökum.“

Í greinargerð með tillögu Sjálfstæðismanna, sem eru stærsti flokkurinn í borgarstjórninni en sitja í minnihluta, var vísað í að áborgarstjórnarfundi 17. september á síðasta ári hafi borgarstjórn samþykkt að ábyrgjast lánveitingu til SORPU bs. upp á einn og hálfan milljarð króna pro rata.

„Með því að ábyrgjast lán byggðasamlagsins var borgin að veðsetja framtíðar útsvarstekjur Reykjavíkurborgar svo fyrirtækið gæti tekið lán vegna framúrkeyrslunnar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðust alfarið gegn þeirri ráðstöfun enda óskynsamlegt að veita veð í útsvarstekjum skattgreiðenda í Reykjavík vegna lausataka í rekstri byggðasamlagsins. Þá er vakin athygli á því að ábyrgð Reykjavíkurborgar er komin yfir eitt hundrað milljarða króna í bæði B-hluta fyrirtækjum borgarinnar og byggðasamlögum,“ segir í greinargerð með tillögunni.