Reykjavík stendur öðrum höfuðborgum á Norðurlöndum að baki á flestum sviðum sem hafa áhrif á samkeppnishæfni borga. Er þetta niðurstaða úttektar alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins PwC á samkeppnishæfni norrænna höfuðborga. Í tilkynningu segir að þetta sé í fyrsta sinn sem Reykjavík er tekin til svo ítarlegrar skoðunar í alþjóðlegum samanburði af þessum toga.

Í tilkynningunni segir að enda þótt Reykjavík standi ekki jafnfætis hinum norrænu höfuðborgunum þegar á heildina er litið, megi jafnframt líta svo á að margvísleg sóknarfæri séu fyrir hendi til þess að efla borgarsamfélagið. Þá er þess getið í skýrslunni að hér hafi að undanförnu átt sér stað eftirtektarverð klasamyndun á sviðum orkunýtingar og umhverfisferðamennsku, sem sé einkar jákvæð þróun. Auk þess kemur Reykjavík vel út í samanburði á ákveðnum atriðum sem snúa að mannauði og lífsgæðum, til dæmis hvað varðar hlutfall háskólamenntaðra, heilbrigðisþjónustu og lága glæpatíðni.