*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 22. febrúar 2018 08:59

Reykjavík skipaði 351 starfshóp

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðismanna bendir á að Reykjavíkurborg hafi skipað starfshóp þriðja hvern dag að meðaltali.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Á síðasta ári voru byggðar 322 íbúðir í Reykjavík en að mati Eyþórs Arnalds oddvita Sjálfstæðismanna í borginni eru verktakar farnir að leita í önnur sveitarfélög vegna frestana og skorts á svörum frá borginni.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Eyþórs í Morgunblaðinu í dag þar sem hann segir stjórnkerfi borgarinnar vera orðið ofvaxið en í heildina hafi á síðustu þremur árum 351 starfshópur verið stofnaður. Það er næstum einn á dag í heilt ár, eða þriðja hvern dag á þessum þremur árum að meðaltali. Segir Eyþór að allir þessir starfshópar hafi ekki verið samhentir í umfjöllun sinni og stefnu. 

Enn einn starfshópurinn til að samræma hina

„Þess vegna hefur núverandi meirihluti brugðið á það ráð að skipa „Starfshóp um miðlæga stefnumótun“,“ segir Eyþór.

„Starfshóp sem hefur þann eina tilgang að samræma flókna stefnumótun allra þessara hópa sem núverandi meirihluti ýtti úr vör á síðasta kjörtímabili. Þannig eru embættismenn borgarinnar orðnir of uppteknir við samræmingu stefnumótunar og hafa því lítinn tíma til að sinna erindum borgarbúa.“

Kallar Eyþór þetta dæmi um hvernig núverandi meirihluti, sem samansettur er af borgarfulltrúum Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, hafi misst tökin á vexti stjórnsýslunnar.  

„[S]em verður til þess að nær ómögulegt er fyrir hana að rækja skyldur sínar,“ segir Eyþór sem segir mikilvægt að einfalda stjórnkerfi borgarinnar. „Það mun spara mikla fjármuni og bæta þjónustuna við borgarbúa. Það er kominn tími til að Ráðhúsið fái aftur jarðsamband við fólkið í borginni og skynsemin fái að ráða.“