Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti áform Reykjavíkurborgar um tvöföldun á lóðaframboði í borginni á hverju ári næstu fimm ár á opnum fundi um húsnæðismál í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Borgarstjóri kallaði þar eftir húsnæðissáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið í anda samgöngusáttmálans.

„Þarna erum við að tvöfalda framboð þeirra íbúða sem fer í byggingu úr 1.000 íbúðum á ári í yfir 2.000,“ er haft eftir Degi í frétt á vef borgarinnar. Allt að fjórðungi lóða verður úthlutað til óhagnaðardrifinna félaga. Hann sagði jafnframt að borgin hafi þegar samþykkt skipulag sem mætir þessum markmiðum í ár og því næsta sem og birt áætlanir um næstu lóðaúthlutanir.

„Þetta eru skýr skilaboð út á markaðinn og þótt Reykjavík hafi dregið vagninn í uppbyggingu íbúða undanfarin fimm ár þá ætlum við okkur enn stærri hlut og hvetjum önnur sveitarfélög til þess sama. Fjármálastofnanir og byggingariðnaðurinn þurfa einnig að gera sitt,“ er haft eftir Degi.

Í tilkynningunni segir að áform um tvöföldun á lóðaframboði í borginni hafi verið sett fram í ljósi skorts á nýjum eignum á húsnæðismarkaðnum. Áætlað lóðaframboð sé í takt við breytt mat HMS um þörf á fjölda íbúða en hún telur að þörf sé á 3.500-4.000 nýjum íbúðum á landinu öllu á hverju ári.

Kallar eftir húsnæðissáttmála

Dagur kallaði á fundinum eftir að gerður verði húsnæðissáttmáli ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Í sáttmálanum myndi koma fram áætlun um alla húsnæðisuppbyggingu til lengri tíma, fjallað um staðsetningu í tengslum við innviði, hvort sem fjármögnun væri af hálfu ríkis, sveitarfélag eða einkaaðila.

„Húsnæðismálin þarf að nálgast heildstætt og til lengri tíma. Það er ekki gott fyrir neinn að íbúðamarkaðurinn sé eins sveiflukenndur og hann hefur verið undanfarið,“ segir Dagur.

„Lykilatriði í þessu samhengi er að tryggja að hluti uppbyggingarinnar verði fyrir þá hópa sem eiga erfiðast að ná endum saman og fjármagna uppbyggingu leiguíbúða fyrir alla aldurshópa og búseturéttaríbúða - að ógleymdum íbúðum fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.“

Sveitarstjórnarkosningar fara fram að sex vikum liðnum, þann 14. maí næstkomandi.

Streymi af fundi Reykjavíkurborgar um húsnæðismál sem fór fram í morgun: