„Alþingi gæti þá bara farið á Þingvöll og þing borgríkisins yrði bara í Ráðhúsinu. Við eigum þetta allt saman, það yrði tiltölulega lítið mál,“ segir Hilmar Sigurðsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórnkerfis- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar, í samtali við Viðskiptablaðið. Hilmar lagði í dag fram tillögu á vettvangi ráðsins um að hafinn verði undirbúningur að ráðgefandi íbúakosningu meðal Reykvíkinga þar sem spurt yrði hvort Reykjavík verði sjálfstætt borgríki.

Hilmar segir að honum sé full alvara með tillögunni. Tillagan sé viðbrögð við frumvarpi um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli sem liggur fyrir Alþingi, en verði frumvarpið að lögum fær ráðherra skipulagsvald yfir flugvellinum. „Það hef ég ekki hugmynd um,“ segir Hilmar spurður um það hvort hann telji líklegt að tillagan verði samþykkt. „Ég henti henni fram þarna í lok fundar.“

Hilmar veit ekki til þess að sambærileg kosning hafi farið fram annars staðar. Afgreiðslu tillögunnar var frestað á fundi stjórnkerfis- og lýðræðisráðs í dag, að sögn Hilmars til þess að fulltrúar í ráðinu fái tíma til að melta tillöguna.

Spurður um það hvort hann telji líklegt að tillagan hljóti meirihluta atkvæða í kosningum segir Hilmar að hann telji svo vera ef tillagan færi í gegnum vandaða umræðu, ef frumvarpið um Reykjavíkurflugvöll verður samþykkt og ef ekki verður farið að tala um jöfnun atkvæðisréttar af alvöru.

„Stofnanir borgarinnar verða að ráðuneytum, kannski verða hverfin okkar að hreppum. Nei hvað veit ég, ég er svo sem ekkert farinn að vinna að neinni útfærslu,“ segir Hilmar. Spurður um það hvort það yrðu ekki deilur um auðlindir og fleira segir Hilmar að svo yrði klárlega. Það væru fullt af álitaefnum í málinu.