Þó Besti flokkurinn hafi ekki notið neinna styrkja fyrir síðustu kosningar til borgarstjórnar í Reykjavík þá nutu flokkar sem áður áttu mann í stjórn framlaga úr sjóðum borgarinnar. Þannig hefur borgin á síðustu fjórum árum veitt á annað hundrað milljónum króna í styrki til flokkanna. Framlög sveitarfélaga með fleiri en 500 íbúa til stjórnmálasamtaka er reyndar lögbundin skylda en ákvörðun upphæðar er þó í valdi sveitarstjórna hverju sinni.

Tæpar 30 milljónir 2010

Greiðsla Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka hækkaði úr samtals 13.900.000 krónum árið 2006 í 32.750.000 árið 2007 eða um 130%. Samkvæmt upplýsingum frá Ólafi Hjörleifssyni, skrifstofustjóra borgarstjórnar, var upphæðin 33,6 milljónir króna árið 2008 og sama upphæð 2009. Samkvæmt fjárhagsáætlun verður upphæðin samtals 29.576.000 krónur á árinu 2010. Er því framlagi skipt hlutfallslega í samræmi við atkvæðastyrk framboða í þarsíðustu kosningum. Hann segir ekki hefð fyrir að veita styrki til nýrra framboða sem ekki uppfylla skilyrði laga fyrir styrkveitingunni. Fram kom á fundi borgarstjórnar í byrjun febrúar að framlög Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka á undanförnum árum hafi verið meira en helmingi hærri en framlög t.d.  Kópavogs, Akureyrar og Garðabæjar ef miðað er við höfðatölu.

Skylt að styrkja framboð

Í 5. gr. laga nr. 162/2006 um framlög til stjórnmálasamtaka frá sveitarfélögum, segir: „Sveitarfélögum með fleiri en 500 íbúa er skylt, en öðrum sveitarfélögum heimilt, að veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, fjárframlög til starfsemi sinnar. Ákvörðun um slík framlög tekur sveitarstjórn samhliða samþykkt fjárhagsáætlunar. Fjárhæðinni skal úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn."

Styrkir til nýrra framboða mögulegir

Af orðalagi 5. gr. laga, lögskýringargögnum og túlkun Sambands íslenskra sveitarfélaga virðist ljóst að skylda sveitarfélaga með 500 íbúa eða fleiri sé bundin við að styðja framboð sem buðu fram í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum í viðkomandi sveitarfélagi og hlutu a.m.k. 5% atkvæða. Lagagreinin útilokar þó ekki að sveitarstjórn ákveði, líkt og nokkuð hefur tíðkast í sveitarfélögum, að ný framboð, sem hyggjast bjóða fram til sveitarstjórnar njóti stuðnings í aðdraganda kosninga.