Reykjavíkurborg ætlar að sækja sér samtals 6,2 milljarða króna með skuldabréfaútboðum á árinu. Blásið verður til annars útboðs ársins og stefnir borgarsjóður á að selja skuldabréf fyrir hálfan milljarð króna í því. Þetta er í samræmi við áætlanir sem hljóða upp á sölu skuldabréfa fyrir 1,5 milljarða á fyrri hluta árs og 4,7 milljarða á seinni hluta ársins.

Fram kemur í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka að þær framkvæmdir sem skuldabréfaútgáfa borgarinnar á að fjármagna falli til á seinni hluta ársins.

Greiningin segir skuldabréfaútboð borgarinanr hafa verið góða í flokknum RVK 09 1 í síðasta mánuði. Tilboð hafi borist fyrir 1.165 milljónir króna að nafnvirði á kröfu sem var á bilinu 3,38%-3,65%. Borgin hafi hins vegar ákveðið að taka tilboðum fyrir 380 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 3,50%. Það hafi verið nokkuð lægri fjárhæð en áform voru um.

Þá hafi niðurstöðukrafan í flokknum verið sú lægsta frá upphafi og álagið á bréf borgarinnar miðað við íbúðabréfaflokkinn HFF44 jafnframt í lægri kantinum í samanburði við útboð undanfarins árs, eða sem nemur 66 punktum.

„Krafa íbúðarbréfaflokksins HFF44 var þá í um 2,84% en stóð í lok dags í gær 2,69%. Þessi kröfulækkun á íbúðabréfaflokknum gæti sett sitt mark á útboðið á morgun, og þar með er ekki ólíklegt að niðurstöðukrafa RVK 09 1 flokksins fari í fyrsta sinn undir 3,5% uppgjörsviðmið lífeyrissjóðanna,“ segir í Morgunkorni Greiningu Íslandsbanka.