Jón Gnarr borgarstjóri tók formlega á móti höggmyndinni Hafmeyjunni eftir Nínu Sæmundson í Hljómskálagarðinum í dag en styttan er gjöf til Reykjavíkurborgar frá verslunarmiðstöðinni Smáralind. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Höggmyndin verður meðal fleiri verka í sérstökum höggmyndagarði sem komið verður upp í Hljómskálagarðinum til minningar um formæður íslenskrar höggmyndalistar. Höggmyndagarðurinn opnar 19. júní. Krani hífði listaverkið á sinn framtíðarstað í syðri tjörninni eftir að Helgi S. Gunnarsson, stjórnarformaður Smáralindar, hafði formlega afhent borgarstjóra verkið á tjarnarbakkanum í Hljómskálagarðinum.

Reykjavíkurborg keypti á sínum tíma afsteypu af Hafmeyjunni og var hún afhjúpuð í Reykjavík í ágúst 1959. Miklar umræður voru í fjölmiðlum um styttuna og voru menn á öndverðum meiði. Svo fór að Hafmeyjan var sprengd í loft upp aðfaranótt nýársdags 1960. Þetta varð listakonunni mikið áfall en málið var aldrei upplýst.

Nýja afsteypan af Hafmeyjunni hefur staðið í Sumargarðinum við Smáralind frá opnun verslunarmiðstöðvarinnar árið 2001. Upphaflegir eigendur Smáralindar keyptu verkið af sambýliskonu Nínu, Polly James.

Í tilkynningu frá Smáralind kemur fram að það sé starfsfólki verslunarmiðstöðvarinnar mikið ánægjuefni að Hafmeyjan komist nú á stað þar sem almenningur geti notið betur þessa merkilega listaverks. Sýnileiki verksins verði mun meiri innan um önnur sambærileg verk. Hafmeyjan er steypt í brons eftir frummynd sem Nína vann um 1948. Hugmyndin að listaverkinu er komin frá þjóðsögunni um hafmeyjuna sem sat á kletti í hafinu og lokkaði sjófarendur með söng en þeir hurfu síðan niður í sjávardjúpin í faðmi hennar. Reykjavíkurborg fagnar því að fá Hafmeyjuna aftur í Tjörnina og þakkar verslunarmiðstöðinni Smáralind kærlega fyrir gjöfina.