Reykjavíkurborg hefur ákveðið að efna til útboðs á morgun í skuldabréfaflokknum RVK 09 1 en um fyrstu útgáfu sveitarfélags á þessu ári er að ræða. Ekki er ólíklegt að töluvert verði um útgáfur sveitarfélaga á árinu m.v. endurfjármögnunarþörf þeirra.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka. Um 31 milljarður króna er á gjalddaga (A+B hluti) á þessu ári hjá 5 stærstu sveitarfélögum landsins og áætla þau að ný lántaka nemi um 29 milljörðum króna (A+B hluti) 2011.

Hafna öllum tilboðum á hærri kröfu en 3,75%

„Skuldabréfið (RVK 09 1) er verðtryggt jafngreiðslubréf sem greitt er af tvisvar á ári. Lokadagur bréfsins er 10. desember 2053 en bréfið er ekki innkallanlegt. Nafnvextir bréfsins eru 4,40%. Stærð flokksins var í upphafi 5 milljarðar króna en er nú 9,33 milljarðar króna að nafnvirði. Reykjavíkurborg stefnir að því að taka tilboðum að fjárhæð 500 milljónir króna að nafnvirði en samþykkt tilboð munu að hámarki nema 100 milljónum króna að nafnvirði. Fram kemur í fréttatilkynningu um útboðið að Reykjavíkurborg muni hafna öllum tilboðum á hærri ávöxtunarkröfu en 3,75%,“ segir í Markaðspunktum.

Kemur fram að skuldabréfaflokkurinn var tekinn til viðskipta um mitt ár 2009 en fjórum sinnum hefur verið efnt til útboðs í þeim tilgangi að stækka flokkinn. Eitt slíkt útboð átti sér stað í lok árs 2009 en þá var öllum tilboðum hafnað þar sem þau þóttu öll of lág.

Álag á skuldabréfaflokkinn RVK 09 yfir HFF44 hefur verið í kringum 50 punkta í síðustu útboðum en hefur sveiflast á milli 40 og 60 punkta í viðskiptum á eftirmarkaði síðustu mánuði. „Krafa HFF44 er 3,23% en verði álagið 50 punktar ætti krafan í útboðinu að vera 3,73% sem er nálægt 3,75% hámarkinu sem Reykjavíkurborg hefur sett sér.

Þetta álag er lágt sérstaklega þegar litið er til þess að Lánasjóður sveitarfélaga hefur þurft að sætta sig við nokkuð hærra álag þrátt fyrir að mjög trygg veð liggi að baki skuldabréfum Lánasjóðsins. Einnig má nefna að meðaltími skuldabréfs Reykjavíkurborgar er mun lengri en meðaltími skuldabréfa útgefin af Lánasjóðnum. Eðlilegt er að lengri bréf seljist á hærri kröfu en styttri bréf en hér er því öfugt farið. Helsta ástæða þess gæti verið að lífeyrissjóðir hafi mikinn áhuga á löngum verðtryggðum bréfum (með ávöxtun umfram 3,5%) en þetta skuldabréf er með því allra lengsta sem býðst á íslenskum markaði og nær Reykjavíkurborg því að fjármagna sig á lægra álagi en ella.“

Segir ennfremur að færa megi rök fyrir því að staða A-hluta Reykjavíkurborgar sé með ágætum. „Lausafjárstaðan er góð, skuldsetning ekki úr hófi auk þess sem gert er ráð fyrir því að afgangur verði af rekstrinum þriðja árið í röð. Geta samstæðunnar til að borga af skuldum er ekki eins góð eins og kennitalan nettó vaxtaberandi skuldir yfir EBITDA gefur til kynna.“