Borgarráð hefur samþykkt að kaupa fasteignir Skóla Ísaks Jónssonar og er kaupverðið 184 milljónir króna.  Jafnframt verða skólanum greiddar 15 milljónir króna vegna viðhaldsframkvæmda sem er að fullu lokið. Gert er ráð fyrir að kaupin verði fjármögnuð af handbæru fé.

Rekstur Skóla Ísaks Jónssonar hefur verið erfiður síðustu ár, einkum vegna mikilla skulda við Landsbankann. Samkvæmt erindi skólans til borgaryfirvalda 4. júlí síðastliðinn liggur nú fyrir tilboð frá Landsbankanum um 76 milljóna króna afskrift á skuldum skólans verði þær greiddar upp að fullu. Kaupverðið, 184 milljónir króna, mun skólinn nota til að gera upp skuldir sínar af því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Vegna alvarlegrar skuldastöðu skólans stóðu forsvarsmenn hans frammi fyrir þeirri ákvörðun að hætta rekstrinum að óbreyttu. Starfsemi og rekstarhæfi skólans er tryggð með kaupum Reykjavíkurborgar.

Seljandi nýtur kaupréttar á fasteignunum til allt að 15 ára á sama raunverði enda stefnir skólinn að því að starfa í eigin húsnæði þegar náðst hafa betri tök á fjármálum hans.

Borgarráð samþykkti jafnframt að heimila Framkvæmda- og eignasviði að leigja skólanum fasteignirnar undir starfsemi sína. Árleg leigufjárhæð verður 8,8% af kaupverði, í samræmi við þau viðmið sem almennt gilda hjá Reykjavíkurborg um innri leigu fasteigna.