Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur vísaði í dag frá dómi máli sem Reykjavíkurborg höfðaði gegn Landsvaka vegna deilna um uppgjör á eignastýringu sem Landsvaki hafði með höndum fyrir borgina. Þetta kom fram á vef RÚV.

Borgin hefur líka höfðað mál gegn Landsbankanum vegna sömu fjármuna og því var málinu vísað frá. Borgin samdi við Landsvaka um eignastýrinu 3. júní 2008. Þann 3. október átti borgin rúma 4,2 milljarða króna í verðbréfum sem voru í eignastýringu hjá Landsvaka en borgin fékk ekki greidda nema 2,7 milljarða króna þegar gert var upp við eigendur Markaðsbréfa og Peningabréfa, þrátt fyrir að daginn sem lokað var fyrir viðskipti hefði borist tilkynning um kaup á bréfum fyrir 4,15 milljarða. Sú tilkynning var dregin til baka næsta dag.

Borgin krefst þess að fá 1,2 milljarða króna greidda. Því var hafnað af slitastjórn Landsbankans og hefur borgin höfðað mál gegn henni til að fá þeirri ákvörðun hnekkt.