Ríkisútvarpið og Reykjavíkurborg hafa komist að samkomulagi um að borgin leigi til næstu fimmtán ára turn Útvarpshússins við Efstaleiti og hluta af annarri og þriðju hæð hússins. Þetta kemur fram á mbl.is .

Samtals mun borgin leigja um tvö þúsund fermetra og verður leigan fimm milljónir króna á mánuði eða 60 milljónir á ári. Er samningurinn því upp á 900 milljónir króna í heildina.

Þá segir í frétt mbl.is að Reykjavíkurborg hyggist setja á fót þjónustumiðstöð fyrir hverfið í húsakynnunum og stefnt sé að því að starfsemin hefjist 1. maí næstkomandi. Framkvæmdir vegna breytinga á húsnæðinu muni hefjast nú strax eftir mánaðamót.