Samdrætti í tekjum Reykjavíkurborgar verður mætt með hagræðingu í rekstri, án þess að hækka skatta eða gjöld á grunnþjónustu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá meirihluta borgarstjórnar en fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010 var afgreidd á fundi borgarstjórnar nú í kvöld en fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir hallalausum rekstri borgarsjóðs.

Þá segir að borgin fari með þessari vinnu sömu leið og heimili og fyrirtæki landsins, forgangsraði í þágu þess sem mestu skiptir, hagræðir og sparar.

Í tilkynningunni segir að þannig verði náms- og fæðisgjöld í leikskólum óbreytt á árinu 2010 auk þess sem 100% systkinaafsláttur verður áfram í gildi. Verð á skólamáltíðum í grunnskólum hækkar ekki og gjaldskrár frístundaheimila verða óbreyttar.

„Með fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar árið 2010 er forgangsraðað í þágu barna og velferðar - án þess að hækka skatta eða gjöld vegna grunnþjónustu,“ segir í tilkynningunni.

„Þannig er engin hagræðingarkrafa gerð á velferðarsvið og útgjöld til velferðarmála aukast um tæpan 1 milljarð króna milli áætlana 2009 og 2010 eða um 11%. Mun lægri hagræðingarkrafa er gerð á menntasvið, leikskólasvið og íþrótta- og tómstundasvið en á miðlæga stjórnsýslu og þau svið Reykjavíkurborgar sem annast framkvæmdir, skipulag og umhverfismál.“