Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, á fyrstu níu mánuðum ársins var neikvæð um 988 milljónir króna. Áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um ríflega ellefu milljarða króna. Niðurstaðan er því tólf milljörðum lakari en áætlað var. Afkoman var jákvæð um rúmlega tólf milljarða á sama tímabili fyrir ári síðan.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 26 milljörðum króna. Rekstrartekjur námu 140 milljörðum króna og rekstrargjöld 114 milljörðum. Skatttekjur námu 76 milljörðum og aðrar tekjur 58 milljörðum. Laun og launatengd gjöld námu 68 milljörðum og annar rekstrarkostnaður 45 milljörðum.

„Efnahagsáfallið sem gengur yfir heimsbyggðina sökum heimsfaraldurs kórónuveiru er farið að birtast í rekstri borgarsjóðs og samstæðu Reykjavíkurborgar. Tekjur minnka og útgjöld aukast,“ kemur fram í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 792 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 3.392 milljónir á tímabilinu. Niðurstaðan er því 4.184 milljónum lakari en gert var ráð fyrir.

„Veiking krónunnar hefur umtalsverð áhrif á erlend lán Orkuveitu og álverð hefur lækkað með neikvæðum áhrifum á álafleiðu Orkuveitu. Mikill tekjusamdráttur hefur orðið hjá Faxaflóahöfnum og Strætó auk Sorpu bs. sökum samdráttar í ferðaþjónustu og minni umsvifa innanlands.

Mikil óvissa er um hversu lengi ástandið varir og hvenær megi ætla að hjól atvinnulífsins fari að snúast aftur af fullum krafti og því erfitt að meta áhrif á rekstur og efnahag borgarinnar með áreiðanlegum hætti til framtíðar.“

Eignir samstæðu Reykjavíkurborgar námu 732 milljörðum króna í lok þriðja ársfjórðungs en 689 milljörðum árið áður. Þar af voru 664 milljarðar varanlegir rekstrarfjármunir, 335 milljarðar af því voru veitukerfi.

Skuldir námu 382 milljörðum en 345 milljörðum árið áður. Eigið fé nam 350 milljörðum en 344 milljörðum árið áður.