Borgarstjórn Reykjavíkur hefur að tillögu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, samþykkt lánsheimild fyrir Reykjavíkurborg að fjárhæð 5,8 milljarðar króna til allt að 25 ára með skuldabréfaútboði.

Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar en tillagan var samþykkt á borgarstjórnarfundi fyrr í dag.

Þar kemur fram að lánið á að taka til að fjármagna framkvæmdir hjá Reykjavíkurborg á árinu 2009 og „er í samræmi við þær áherslur sem lagðar voru í aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar vegna breytinga í efnahagsumhverfinu og samþykkt var einróma í borgarstjórn Reykjavíkur þann 7. október s.l.“

Ráðist verði í mannaflsfrekar framkvæmdir

Þá segir Óskar Bergsson, formaður borgarráðs og framkvæmda- og eignaráðs, mikilvægt að forgangsröðun framkvæmda miði við mannaflsfrek verkefni í nýframkvæmdum og viðhaldi.

Hins vegar verði framkvæmdum eða verkefnum sem geta beðið eða kalla á aukinn rekstrarkostnað frestað eða dregið úr kostnaði vegna þeirra.

Þá kemur fram að nánari grein verður gerð fyrir fjárfestingaráætlun við framlagningu frumvarps að fjárhagsáætlun fyrir árið 2009.