Reykjavíkurborg hefur lagt fram tilboð í lóðina Keilugranda 1. Tilboðið hljóðar upp á greiðslu 60 milljóna króna í reiðufé við afhendingu afsals ásamt því að greiða með þremur eignum sem borgin lætur ganga upp í kaupverðið. Áætlað er að kaupverðið skili sér aftur með sölu á byggingarrétti á lóðinni. Lóðin er í nágrenni við Grandaskóla og íþróttasvæði KR. Þar er nú skemma sem borgin eignast.

Lóðin við Keilugranda 1 er í eigu Mynnis, félags í eigu slitastjórnar gamla Landsbankans. Fasteignamat hennar nemur 482,4 milljónum króna í bókum Mynnis. Á meðal annarra eigna Mynnis er Umferðarmiðstöðin í Vatnsmýri sem Reykjavíkurborg vill líka kaupa.

Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að um lóðina hafi ríkt nokkur óvissa en þar hafi verið uppi óskir um mikla uppbyggingu sem ekki séu í takt við hugmyndir skipulagsyfirvalda í borginni. Með kaupunum geti borgin skipulagt lóðina eftir eigin óskum. Gert er ráð fyrir hóflegri þéttingu byggðar á reitnum sem samræmist nýju aðalskipulagi.

Eignirnar sem Reykjavíkurborg lætur ganga upp í kaupverðið eru 2. hæðin við Suðurlandsbraut 32, Einimelur 19 og Búðargerði 9, íbúð á 2. og 3. hæð.