Á höfuðborgarsvæðinu voru laun hæst í Garðabæ árið 2015, eða 524.800 krónur að meðaltali samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins á tekjum og eignum í helstu sveitarfélögum landsins. Um var að ræða 11,75% hækkun að raunvirði frá árinu 2000, en þess ber að geta að hlutastörf eru einnig inni í þessum tölum. Eignir jukust um 40,8% að raunvirði og voru að meðaltali rúmar 42 milljónir króna. Einungis á Seltjarnarnesi var meðaleignarstaða íbúa hærri, eða tæpar 45,2 milljónir króna.

Þessi tvö bæjarfélög voru í algerum sérflokki þegar kom að hreinni eign árið 2015, en á Seltjarnarnesi var hrein eign 34,2 milljónir og í Garðabæ var hún 29,3 milljónir. Til samanburðar var hrein eign í Reykjavík tæpar 15,2 milljónir. Eignarstaða íbúa Seltjarnarness jókst að meðaltali um 54,4% frá árinu 2000 á meðan skuldir jukust um einungis 24,6%. Meðallaun Seltirninga hækkuðu hins vegar einungis um 7,9% á sama tímabili, sem var minnsta hækkunin að frátöldum Reykjanesbæ, og voru tæp 490 þúsund.

Eignarstaðan tók langmestan kipp í Vestmannaeyjum frá árinu 2000, en þar var meðaleign árið 2015 tæpum 72% hærri en um aldamótin að raunvirði, um 25,3 milljónir króna. Skuldir voru einungis rúmar átta milljónir að meðaltali. Í Vestmannaeyjum hækkuðu raunlaun jafnframt um 20% yfir tímabilið og námu 486.500 krónum að meðaltali. Í Fljótsdalshéraði var einnig mikil hækkun á meðaleignarstöðu hvers íbúa, alls 55,6%, og var hún 20,1 milljón króna í fyrra. Þar voru laun tæp 420.000 á mánuði. Í Ísafjarðarbæ hækkaði hrein eign einungis um 6,85% frá aldamótum og var 8,7 milljónir. Laun hækkuðu um 9,4% og voru 403.100 krónur.

Reykjavík neðst á höfuðborgarsvæðinu

Þegar kemur að höfuðborgarsvæðinu voru launin langlægst í Reykjavík í fyrra, eða að meðaltali 371.300 krónur. Munaði meira en 50.000 krónum á Reykjavík og næsta bæ, Hafnarfirði, þar sem meðallaun voru 424.000. Hafnarfjörður var eini staðurinn á höfuð­ borgarsvæðinu þar sem hrein eign var lægri í Reykjavík, eða 12,7 milljónir króna.

Líkt og áður kom fram voru laun íbúa Garðabæjar hæst en þar á eftir kom Seltjarnarnes með 489.600 krónur á mánuði. Í Mosfellsbæ voru meðallaunin 457.600 krónur á mánuði og í Kópavogi voru þau 448.000 krónur. Á höfuðborgarsvæðinu höfðu laun hækkað mest í Mosfellsbæ frá aldamótum, eða um 14,5% að raunvirði. Hækkunin var langminnst á Seltjarnarnesi líkt og áður kom fram. Einu sveitarfélögin með lægri meðallaun en Reykjavík voru Reykjanesbær og Árborg. Í Árborg voru meðallaun 370.100 krónur, eða einungis þúsund krónum lægri en í Reykjavík. Á Akranesi voru meðallaun 440.800 krónur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .