Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir fólk orðið þreytt á ástandinu í Reykjavíkurborg og að það sé byrjað að sjá í gegnum Dag B. Eggertsson, borgarstjóra.

Það á auðvitað eftir að setja fram lista og margt á eftir að gerast, en hvernig meturðu möguleika Sjálfstæðisflokksins, á þessum tímapunkti, á að komast í meirihluta?

„Ég hef upplifað það sérstaklega sterkt síðasta árið að ólíklegasta fólk er að snúa sér að mér og segist ætla að kjósa okkur, þótt það hafi aldrei áður kosið Sjálfstæðisflokkinn. Það blæs mér byr í brjóst vegna þess að maður heyrir á umræðunni að fólk er orðið þreytt á ástandinu í borginni, en Dagur er slyngur stjórnmálamaður. Hann á örugglega eftir að spila út ágætis ársreikningi árið 2017 og nýta sér ýmis tækifæri í ár og fram að kosningum, en ég held að Reykvíkingar séu aðeins farnir að sjá í gegnum hann.“

Ert þú sammála þeim sem halda því fram að núverandi meirihluti sé í „aðför gegn einkabílnum“?

„Ég upplifi ekki beinlínis aðför að einkabílnum og hef aldrei orðað það þannig, en kannski frekar aðför að fólkinu sem þarf að komast í og úr vinnu og er dæmt til að hanga í bílunum sínum allt of lengi þegar hægt væri að liðka fyrir með einföldum aðgerðum oft og tíðum. Fólk sér alltaf fyrir sér einhver skrímsli þegar verið er að tala um mislæg gatnamót, en það eru alveg til krúttleg mislæg gatnamót, eins og undirgöngin á Miklubrautinni við Kringluna. Fólk sem býr í Breiðholti, Grafarholti og Grafarvogi og þarf að komast til vinnu upplifir a.m.k. á hverjum einasta morgni að auðvitað væri hægt að gera betur í samgöngumálum, enda velja yfir 80% íbúa einkabílinn.

Á sama tíma og meirihlutinn fullyrðir að það sé ekki hægt að gera betur fyrir einkabílinn, en í staðinn sé hægt að gera betur í almenningssamgöngum, talar hann um einhverjar samgöngur sem eru svo langt inni í framtíðinni að það sér enginn fyrir sér að neitt muni gerast á næstu árum. Það er talað um einhverja borgarlínu, hágæða almenningssamgöngur með vagna á fimm til sjö mínútna fresti, en sem betur fer er reyndar ekki lengur verið að tala um lestarkerfi. En af hverju er ekki strax hægt að setja þessa tíðni á strætisvagna eins og þeir eru núna til að bæta almenningssamgöngur undir eins? Dagur B. er að ýta þessu á undan sér og hafa þetta áfram í spjallinu svona eins og húsnæðismálin. En varðandi borgarlínu þá skulum við hafa í huga að það eru svo stórkostlegar tæknibreytingar fram undan að best er að vaða ekki fram úr sjálfum sér í þessum málum og fjárfesta í lausnum sem verða úreltar þegar þær líta loks dagsins ljós.

Ég vil líka segja að ef Dagur B. og fé­lagar trúa á borgarlínuna, þá ættu þeir að trúa því að það sé hægt að byggja upp í Úlfarsárdal. Hann sagði á fundi um daginn í borgarstjórn, þar sem hann m.a. ásakaði mig um að vera marxisti því ég fór að tala um framboð og eftirspurn, að það þýði ekkert að byggja svo mikið eins og við Sjálfstæðismenn erum að tala um í Úlfarsárdal vegna þess að fólk festist bara í Ártúnsbrekkunni. Svo sagði hann í næstu setningu: „ég hvet félaga okkar á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars í Mosfellsbæ, til að standa sig betur í því að útvega lóðir.“ Það fólk þarf líka að komast til vinnu og fer um Ártúnsbrekkuna. Þetta er algjör rökleysa hjá borgarstjóra.“

Forgangsverkefni að lækka útsvarið

Hvernig sér Sjálfstæðisflokkurinn fyrir sér að taka til í rekstri borgarinnar ef hann kemst í meirihluta?

„Til að byrja með myndum við skoða yfirbygginguna, en við sjáum að það hafa orðið til ýmis ný störf og jafnvel nýjar stofnanir. Við þurfum að einblína á hvað eru lögbundin verkefni borgarinnar. Ég get fullyrt að stöðugildum borgarinnar fjölgaði um 27 á milli 2015 og 2016 og enn meira á árinu þar á undan. Ég reiknaði út á þarsíðasta borgarstjórnarfundi að frá 2010 væri fjölgun stöðugilda búin að kosta borgina 1,7 milljarða á ári. Ég spurði hvaðan þessi fjölgun kæmi og hvar þetta fólk væri og ég er ekki enn búinn að fá svör við þessum spurningum.

Því má bæta við að á sama tíma og foreldrar eru að kvarta yfir því að það sé ekki gott næringarinnihald í leikskólamatnum, á sama tíma og það var lokað fyrir mat um helgar fyrir eldri borgara, þá er allt í lagi að setja 15 milljónir í að styrkja einhverjar siglingar á milli Reykjavíkur og Akraness. Þetta er ekki stór tala en í samhengi við hitt er það stór tala. Mér finnst líka mjög flott að mála húsgafla og setja upp Erró-verk og gera alls konar svoleiðis hluti, en ef þú ert á sama tíma að draga saman í grunnþjónustunni sem þú átt að vera að sinna: skólum, leikskólum og eldri borgurum, þá er það hallærislegt og bara lélegt.“

Er það stefna Sjálfstæðisflokksins að lækka útsvarið?

„Algjörlega, og það er hægt meðal annars með því að vinda ofan af þessum þáttum sem ég var að tala um. Hugsun vinstri manna er gjarna þannig að þú verður að fullnýta alla tekjustofna, þeim finnst að ef þú leggur ekki á hámarksskatta sértu að tapa einhverju. Í niðurstöðu Reykjavíkurþings Sjálfstæðisflokksins segir að við eigum að reyna að vinna að því að ná útsvarinu niður í lágmarkið, en ég sagði líka í umræðum á þinginu að þá yrðum við að vera með meirihluta í borginni allavega næstu 20 árin, vegna þess að við þurfum að greiða niður skuldir líka og þetta tekur allt tíma. En ég er algerlega sannfærður um að það er hægt að vinda ofan af útsvarinu og það á að vera eitt af forgangsverkefnunum.“

Nánar er fjallað við Halldór í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .