Alcoa hyggst fjárfesta sjö milljarða Bandaríkjadali í Kanada til þess að afla stuðnings meðal þarlendra stjórnmálamanna við yfirtökutilboð í Alcan. Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal fullyrðir að þrátt fyrir djúpstæða andstöðu sumra stjórnmálamanna við fyrirhugaða yfirtöku hafi margir snúist á sveif með Alcoa.

Ef af sameiningunni verður myndu tekjur hins sameinaða fyrirtækis vera um 54 milljarðar Bandaríkjadala á ársgrundvelli. Hátt í tvöhundruð þúsund manns myndu starfa hjá fyrirtækinu sem réði yfir tólf námum, þrettán súrálvinnslustöðvum og fjörtíu og sex álbræðslum um heim allan. Sameinað fyrirtæki gæti framleitt hátt í átta milljónir tonna af áli á ári hverju eða um tuttugu prósent af heimsframleiðslunni.

Ástæða andstöðu margra Kanadamanna við yfirtöku Alcoa á Alcan er meðal annars ótti við að missa eitt helsta flaggskip kanadísks iðnaðar í hendur erlendra fjárfesta. Talsmenn Alcoa hafa lýst því yfir að eigendur Alcan myndu fá ?umtalsverð? áhrif innan stjórnar sameinaðs fyrirtækis, og auk þess hafa þeir lofað gríðarlega mikilli fjárfestingu í Québec- fylki en þar eru höfuðstöðvar Alcan. Er talað um stærstu fjárfestingu einkageirans í sögu fylkisins í því samhengi. Auk þess segja talsmenn Alcan að höfuðstöðvar hins sameinaða fyrirtækisins yrðu á tveim stöðum: New York borg í Bandaríkjunum og Montral í Québec hinsvegar.

Alcoa setti fram óvinveitt yfirtökutilboð á dögunum að verðmæti 33 milljarða Bandaríkjadala, eða um 2.100 milljarða íslenskra króna. Tilboðið var lagt fram eftir að viðræður um sameiningu á vinsamlegri nótum höfðu runnið út í sandinn.

Ástæða tilboðsins er meðal annars að bregðast við aukinni samkeppni frá vaxandi álrisum á borð við Rusal í Rússlandi. Það er hald forráðamanna Alcoa að sameining geri félögunum kleift að vaxa með örari hætti en í sitthvoru lagi. En það dugir ekki eingöngu að sannfæra eigendur Alcan um að tilboðið sé ásættanlegt
og að samlegðaráhrifin séu til staðar. Einnig þurfa stjórnvöld í Kanada að gefa grænt ljós á yfirtökuna, samkeppnisyfirvöld víða um heim þurfa að samþykkja hana, og á sama tíma þykir alls ekki ólíklegt að önnur álfyrirtæki blandi sér í slaginn um Alcan.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.