Stjórnendur Royal Bank of Scotland (RBS) eru allt annað en sáttir með þá ákvörðun hollenska bankans ABN Amro að ætla selja bandaríska smásölubankann LaSalle til Bank of America, eins og kveðið er á um í samkomulagi sem gert var við Barclays á mánudaginn. Í frétt Financial Times er sagt að Sir Fred Goodwin, framkvæmdastjóri RBS, hafi orðið "trylltur" þegar hann frétti af því að LaSalle bankinn yrði seldur fyrir 21 milljarð Bandaríkjadala. Salan, sem ekki þarfnast samþykki hluthafa ABN, gæti grafið verulega undan áformum RBS, Santander og Fortis að yfirtaka hollenska bankann og skipta honum upp.

Eitt af því sem er talið að hafi skipt mestu máli fyrir því að ABN Amro og Barclays náðu að komast að samkomulagi um samruna bankanna, var sú ákvörðun ABN að samþykkja kröfu Barclays um að selja LaSalle. Framkvæmdastjóri Barclays, John Varley, sagði að valkostirnir sem hluthafar ABN stæðu frammi fyrir gætu ekki verið skýrari: "Við erum að tala um að byggja upp einn besta banka á heimsvísu. Tillaga hins hópsins gengur út að búta hann niður. Andstæðurnar gætu ekki verið meiri."

Hins vegar er ekki víst að allir hluthafar ABN séu sammála stjórnendum bankans um að selja LaSalle. The Children´s Investment Fund, sem á eitt prósent hlut í ABN Amro, hefur barist hart fyrir því að bankinn verði bútaður niður. Forsvarsmenn sjóðsins sögðust á mánudaginn hafa áhyggjur af því að með sölunni á LaSalle sé "hindrað á ósanngjarnan" hátt að fyrirtækjahópurinn - sem RBS leiðir - geti lagt fram tilboð í ABN.

Í stuttri yfirlýsingu frá fyrirtækjahópnum kom fram að hann hefðu óskað eftir upplýsingum frá ABN um það undir hvaða kringumstæðum hægt væri að koma í veg fyrir söluna á LaSalle. Samkvæmt heimildarmönnum Financial Times er hópurinn að íhuga að leggja fram talsvert hærra tilboð heldur en Barclays - 67 milljarðar evra - og ná þannig að stöðva söluna á LaSalle, en stjórnendur ABN hafa rétt á því að slíta samkomulaginu við Barclays berist hærra tilboð í bankann.