Sérfræðistéttir landsins glíma, líkt og aðrir, við afleiðingar veirufaraldursins og afleidd efnahagsleg áhrif. Óvissan í efnahagslífinu flækir vinnu endurskoðenda og skýringar ársreikninga sem stóðust skoðun í gær geta verið orðnar úreltar á morgun. Formaður Lögmannafélags Íslands (LMFÍ) segir stöðuna nú sérstaklega slæma fyrir einyrkja sem gerðu út á sakamál. Þá hefur fyrirkomulag sýninga á fasteignum farið nokkur ár aftur í tímann, það er opin hús hafa nú vikið fyrir einstaklingssýningum.

„Lögmenn standa frammi fyrir sömu áskorunum og flestir aðrir við þær aðstæður sem uppi er. Það er viðbúið að þeir sem eru sjálfstætt starfandi muni margir hverjir lenda í umtalsverðum erfiðleikum,“ segir Berglind Svavarsdóttir, formaður LMFÍ.

Í rúmlega hálfan mánuð hefur starfsemi dómstólanna verið skert til muna. Mál sem enga bið þola, á borð við nauðungarvistanir, barnaverndarmál og sakamál þar sem sakaður maður sætir gæsluvarðhaldi, eru enn rekin áfram en flestum öðrum málum slegið á frest.

„Þessu til viðbótar hefur skýrslutökum hjá lögreglu, í málum sem þola bið, verið frestað,“ segir Berglind. Breyting varð á í síðustu viku þegar sýslumenn heimiluðu að fjarfundabúnaður yrði notaður í umgengni- og fjölskyldumálum.

Einnig er óvíst með vorútskrift á lögmannanámskeiðinu. Fyrri hluti námskeiðsins hefur verið kenndur en þeim síðari frestað vegna veirufaraldursins. Þá er ekki hlaupið að því fyrir væntanlega lögmenn að verða sér úti um prófmál til að standast prófraunina.

„Námskeiðinu hefur verið frestað um ótiltekinn tíma en því verður fram haldið þegar aðstæður hafa breyst til betri vegar. 46 voru skráðir á síðari hlutann. Það hefur verið eitt námskeið að vori og annað að hausti en það er ekki hægt að segja til um nú hver örlög vornámskeiðsins verða. Það verður bara að koma í ljós,“ segir Berglind.

Fasteignamarkaður ekki í frosti

„Að sjálfsögðu hefur þetta áhrif á okkar störf. Við höfum dregið úr eða hætt opnum húsum alfarið og einstaklingsskoðanir tekið við í staðinn. Þá er viss hópur, sér í lagi fólk á besta aldri, sem mætir minna til að skoða eða bíður með sölu,“ segir Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala.

Kjartan segir að þótt um óhefðbundið ástand sé að ræða þá sé ekki frost á markaðnum. Vissulega séu ýmsar takmarkanir sem geri starfið erfiðara en því fari fjarri að seljendur séu að fara á taugum.

„Það sjá allir að það kemur betri tíð og flest sem bendir til þess að við séum á réttri leið. Við fáum mikið af fyrirspurnum þar sem eigendur eru að velta fyrir sér hvernig þeir geti búið sér í haginn fyrir þann tíma þegar allt kemst á eðlilegt skrið aftur,“ segir Kjartan.

Þótt hægt sé að afgreiða flest með rafrænum hætti þá eru ákveðnir þættir starfsins, þá helst kaupsamningar og afsöl, sem krefjast enn penna og eiginhandarundirritunar.

„Kaupandi og seljandi koma nú í sitthvoru lagi, eða pappírarnir keyrðir til þeirra, svo við séum ekki að stefna fólki saman að óþörfu. Það hefði verið þægilegt við þessar aðstæður ef kerfið biði upp á rafrænar undirritanir en kannski verður þetta til þess að ýta á eftir slíku,“ segir Kjartan.

Vonast eftir frestum

Bryndís Björk Guðjónsdóttir, formaður Félags löggiltra endurskoðenda, segir að stór hluti stéttarinnar sinni störfum sínum nú í heimavinnu. Þar sem fyrirtæki séu enn opin hafi húsnæði verið hólfuð niður og starfsfólki skipt í hópa til að allt sé í samræmi við fyrirmæli yfirvalda.

„Á þessum tíma er vanalega hávertíð og mikið vinnuálag. Þetta hefur hægt talsvert á vinnu í stéttinni,“ segir Bryndís. Framundan eru skil á ársreikningum stórra fyrirtækja til ársreikningaskrár en skilum á ársreikningum samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, sem skila átti í gær, hefur verið frestað út mánuðinn.

„Tölurnar í ársreikningunum núna breytast sennilega ekki mikið en það er nokkuð snúið hvaða skýringar ber að setja í ársreikninginn. Við höfum lagt til að almennt sé skýring, um atburði eftir reikningsskiladag, um áhrif og afleiðingar COVID. Félagið hefur síðan átt í samtali við Skattinn og ráðuneyti um að fresta mögulega skilum á ársreikningum til ársreikningaskrár,“ segir Bryndís.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .