Stjórnvöld á Ítalíu reyna nú öllum mætti að bjarga elsta banka í heimi, Monte dei Paschi di Siena bankanum, án þess að brjóta reglur Evrópusambandsins um ríkisaðstoð. Hinum 544 ára gamla banka hefur tvisvar áður verið bjargað, en nú liggur fyrir að gert verður álagspróf í lok mánaðarins sem bankinn mun ekki geta staðist án inngripa.

Reglur banna beina ríkisaðstoð

Í stað þess að setja beint fé úr ríkissjóði í bankann eru ítölsk stjórnvöld að leita að öðrum lausnum sem færu framhjá reglum sem banna beina ríkisaðstoð.

Byggir nýjasta lausnin á því að finna leiðir til að kaupa vandræðalán bankans, það er lán sem eru í vanskilum, á hagstæðum kjörum með fé frá einkareknum og ríkisstuddum fyrirtækjum og stofnunum. Myndi hún nýta Atlante sjóðinn sem er einkarekinn, en nýtur stuðning ríkisins, og þyrfti því ekki á samþykkti frá Brussel að halda.

Byggir björgunin á því að auka við þær 4,25 milljarð evra sem Atlante sjóðurinn hefur yfir að ráða með 2 milljörðum evra með fé frá lífeyrissjóðum og CDP bankanum sem hvort tveggja er í eigu ríkisins.

Þriðjungur lánasafns í vanskilum

Er markmiðið þá að ná að tryggja sölu á 10 milljarða evru virði af vandræðalánum úr lánasafni Monte Paschi bankans. Bankinn myndi jafnframt reyna að afla um 7 milljarða evra í nýjum fjármagni.

Hlutabréf í bankanum hafa hrunið um 75% það sem af er ári, vegna þess að í lánasafni þess eru um 50 milljarðar evra af lánum sem eru í vanskilum, en það er um þriðjungur af 160 milljarða evra heildareignasafni bankans.