*

sunnudagur, 7. júní 2020
Erlent 8. apríl 2020 18:18

Reyna að bjarga Norwegian

Samkvæmt nýju plani stjórnenda norska flugfélagsins á að breyta ríflega 620 milljarða króna skuldum í hlutafé.

Ritstjórn
Jacob Schram, stjórnarformaður Norwegian.

Stjórnendur Norwegian Air munu leggja til að ríflega 620 milljarða króna (4,3 milljarða dollara) skuldum félagsins verði breytt í hlutafé og ný hlutabréf gefin út. Ákvörðun um þessa áætlun verður tekin á aukaaðalfundi félagsins, sem haldinn verður 4. maí. Norwegian rær lífróður vegna áhrifa heimsfaraldursins á fluggeirann og hefur næstum öllum flugflota félagsins verið lagt. 

Með því að auka eigið fé félagsins á það rétt á ríkisábyrgð frá norskum stjórnvöldum upp á 3 milljarða norskra króna eða ríflega 40 milljarða íslenskra króna. Skilyrði fyrir slíkri ábyrgð er að skuldahlutfall félagsins lækki.

Um miðjan mars sagði flugfélagið tímabundið upp 7.300 starfsmönnum eða um um 90% af öllum félagsins. Á sama tíma felldi félagið niður 85% af sínum flugferðum. Staðan hefur bara versnað síðan þetta gerðist.

Í lok síðasta árs var eiginfjárhlutfall Norwegian 4,8% á meðan vaxtaberandi skuldir námu 58,3 milljörðum norskra króna eða um 780 milljörðum íslenskra króna. Á sama tíma nam laust fé einungis um 3,1 milljarði norskra króna. Þá hefur félagið skilað tapi þrjú ár í röð.

Stikkorð: Norwegian