Það er mikil gróska hjá Dohop þessa dagana, á árinu hefur fyrirtækið bætt við sig 12 nýjum starfsmönnum og þremur sumarstarfsmönnum. Milli ára hefur því starfsmannafjöldinn tvöfaldast úr 15 í 30. "Það hefur aldrei verið jafn mikið að gera," segir Davíð Gunnarsson framkvæmdastjóri Dohop. Dohop sem hefur sérhæft sig í að auðvelda fólki að bóka frí er nú að koma á fót fyrirtækjaþjónustu á Íslandi.

Flugleitarvélin Dohop sem margir kannast við og hafa nýtt til að bóka sér frí hefur sögulega ekki boðið viðskiptafargjöld en nú er fyrirtækið að koma á fót fyrirtækjaþjónustu í samstarfi við erlent fyrirtæki. Það fyrirtæki getur bókað fargjöld af öllu tagi, bæði óendurgreiðanleg og sem hægt er að breyta. "Það virðist vera ákveðinn skortur á almennilegri og almennri svona þjónustu á Íslandi. Margir eru í þjónustu hjá Icelandair en það er vandkvæðum bundið því þeir eru með takmarkaða sýn á heiminn. Þeir eru bara með ákveðin samstarfsflugfélög sem þeir geta bókað hjá og það getur þá orðið miklu dýrara en ella," segir Davíð. Dohop er að svara eftirspurninni sem er til staðar hér. "Við höfum þekkingu og höfum skapað okkur nafn í þessum ferðabransa hérna heima. Við búum vel að því að vera hlutlaus. Við erum að reyna að breyta aðeins þessum markaði hérna heima, hann er aðeins staðnaður og lokaður." Fyrirtækjaþjónustan er nú þegar farin af stað og segir Davíð að Dohop sé strax komið með slatta af fyrirtækjum í viðskipti.

Þriðjungur af núverandi verði

Davíð bendir á að verð fyrir fyrirtækjaþjónustu er mjög hátt. "Fyrirtækið Visitor til að mynda rukkar 4500 krónur fyrir bókunina. Mér finnst það svolítið bratt. Við erum að fara í samstarf við erlendan aðila sem er að þjónusta marga aðila og getur þar að leyti boðið samkeppnishæfara verð og við munum bara rukka 1500 krónur fyrir hverja bókun sem er þriðjungur af núverandi verði."

Aðspurður um hvort Dohop muni taka þátt í útboði á flugi ríkisstarfsmanna svarar Davíð því játandi. "Ef það verður eitthvað útboð tökum við að sjálfsögðu þátt í því. Við erum búin að keyra eins hratt og við mögulega getum að koma þessari fyrirtækjaþjónustu í loftið til þess að hún sé klár og það sé komin reynsla á hana þegar útboðið kemur.

"Sýn okkar á þetta útboð er að við erum hluthlaus aðili," segir Davíð. Hann telur að það sé ekki endilega skynsamlegt að gera samning við eitt flugfélag, því auðvitað hefur það takmarkaða getu til þess að þjóna mönnum. "Við erum hins vegar með þjónustu þar sem hægt er að bóka þjónustu með hvaða flugflélagi sem er undir hvaða skilmála sem er," segir Davíð.

Nánar er fjallað um málið í Frumkvöðlum tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .