Slitastjórn Kaupþings vinnur að því að endurheimta lán sem bankinn veitti starfsmönnum til kaupa á hlutabréfum í bankanum. Útlit er fyrir að lánin muni ekki endurheimtast nema að litlu leyti enda um verulegar fjárhæðir að ræða í mörgum tilvikum. Heildarskuldir starfsmanna bankans námu um 60 milljörðum króna við fall hans að því er fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Sú tala er tekur tillit til þess að lánin voru mörg hver í erlendum myntum eða gengisbundin og því má telja að heildarskuldin í dag sé eitthvað lægri í takt við gengisþróun.

Slitastjórnin hefur samið við um 50 starfsmenn en ekki hafa náðst samningar við rúmlega 20. Á meðal þeirra sem slitastjórnin hefur ekki samið við eru æðstu stjórnendur bankans, m.a. Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður og Ingvar Vilhjálmsson.

Í heild voru lán veitt til ríflega 70 starfsmanna að sögn Guðna Ásþórs Haraldssonar hrl. sem fer með stóran hluta málanna í dómskerfinu fyrir hönd slitastjórnar.

Gerði upp skuldir

Bjarki Diego hrl., sem var framkvæmdastjóri útlána hjá Kaupþingi fyrir hrun, er einn þeirra sem samið hefur um að greiða skuldir sínar til baka. Um var að ræða tæplega 80 milljóna króna skuld sem var tilkomin vegna 10% persónulegrar ábyrgðar á um 800 milljóna króna skuld. "Ég gerði upp allar mínar skuldir í sumar. Ég passaði upp á það að eiga fyrir því sem ég var í ábyrgðum fyrir," sagði Bjarki í samtali við Viðskiptablaðið en hann starfar nú sem lögmaður á lögfræðistofunni BBA Legal.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaði morgundagsins er:

  • Margra milljarða óinnleyst tap lífeyrissjóða
  • 76 milljarða skuldir færðar frá SpKef
  • Milljarður í ríkissjóð Færeyinga
  • Rússíbanaferð í boði S&P
  • Tap N1 á árinu 2010
  • Spá 6 milljarða hagnaði á árinu
  • Moody's eykur vanda FIH
  • Viðtal við Ara Edwald, forstjóra 365