Hagstofan ætlar að halda sínu striki þegar kemur að mælingum á verðbólgu, þó verðmælingar á mörgum vörum gætu reynst þrautinni þyngri þessa dagana. Vegna samdráttar á ýmsum sviðum í hagkerfinu eru sumir vöruflokkar varla í boði, og er þar sér í lagi horft til flugmiða. Sem dæmi um það voru fjórar brottfarir frá Keflavíkurflugvelli í dag en upphaflega stóð til að þær yrðu um þrjátíu. Þá hafa fjöldi verslana og veitingastaða einnig skellt í lás á síðustu vikum.

Hagstofan hyggst þó ekki breyta samsetningu vísitölu neysluverðs, sem mæling á verðbólgu er byggð á. Ástæðan er að neyslubreytingarnar séu tímabundnar og muni ganga til baka þegar takmörkunum verður aflétt af samfélaginu.

„Hagstofan mælir verðlag eins nákvæmlega og stofnuninni er unnt við þær aðstæður sem eru uppi hverju sinni. Við óvenjulegar aðstæður, þar sem fram koma mikil frávik frá eðlilegri verðþróun, er tekið á því sérstaklega. Því er þess ekki að vænta að mæling Hagstofunnar komi til með að sýna skyndilegt stökk í neysluflokkum þar sem viðskipti eru lítil eða engin sem fyrr segir,“ segir á vef Hagstofunnar.

Þá hafi mæling og útreikningur á vísitölu neysluverðs í mars gengið eðlilega fyrir sig en í henni lækkaði verðbólga úr 2,4% í 2,1% milli mánaða. Mæling Hagstofunnar í mars fór fram áður en verulegra áhrifa af útbreiðslu kórónuveirunnar fór að verða vart í neyslu. „Það liggur á hinn bóginn fyrir að áskoranir munu koma fram við mælingu vísitölu neysluverðs í apríl og áfram á meðan ástandið varir,“ segir á vef Hagstofunnar.

Til stendur að birta sérstaka síðu á vefsíðu Hagstofunnar á næstunni þar sem leitast verður við að svara þeim spurningum sem vænta má að brenni á almenningi vegna þróunar vísitölu neysluverðs í ljósi þess ástands sem ríkir í þjóðfélaginu um þessar mundir.

Hagstofan bendir á að varnaraðgerðir stjórnvalda hafa bæði áhrif á framboð, aðgengi og kaup á neysluvörum og þjónustu, sem flæki málið enn frekar.

„Hagstofa Íslands mun verðmeta vörur og þjónustu sem verða fyrir áhrifum aðgerðanna, en val á aðferðum við verðmat er bundið alþjóðlegum stöðlum. Hagstofa Íslands vinnur í samstarfi við hagstofur í allri Evrópu og Eutostat, hagstofu Evrópusambandsins, að samræmdri nálgun við verðmat á vörum og þjónustu sem eru í takmörkuðu framboði eða ófáanlegar enda eru viðfangsefnin þau sömu í öðrum löndum. Greint verður betur frá þeim aðferðum sem beitt verður við fyrsta tækifæri,“ segir á vef Hagstofunnar.