Slitastjórn Kaupþings vinnur enn að máli sínu gegn Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg og innheimtu á láni sem hann fékk til kaupa á hlutabréfum í bankanum. Eftir því sem næst verður komist óskaði slitastjórnin eftir því í tengslum við fjárnámsbeiðni á hendur Magnúsi að sýslumaðurinn í Reykjavík aflaði skattframtala Magnúsar erlendis frá en hann er skráður er til heimilis í Lúxemborg. Sýslumaður taldi það ekki hlutverk sitt og hafnaði beiðni slitastjórnarinnar. Slitastjórnin skaut úrskurðinum til Héraðsdóms Reykjavíkur og var málið þingfest þar í morgun.

Héraðsdómur dæmdi Magnús til að greiða þrotabúi Kaupþings rúmar 717,3 milljónir króna með vöxtum í desember árið 2011 vegna lána sem hann fékk til hlutabréfakaupanna. Stjórn Kaupþings hafði stuttu áður en bankinn fór í þrot fellt persónulega ábyrgð Magnúsar á lántökunni úr gildi. Héraðsdómur felldi þá ákvörðun síðar úr gildi eftir að skilanefnd hafði tekið við stjórn bankans í október árið 2008.

Magnús var handtekinn ásamt Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings-samstæðunnar í maí árið 2010 og úrskurðaður í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn embættis sérstaks saksóknara á meintri markaðsmisnotkun. Hann hafði þá tekið við stóli bankastjóra hjá Banque Havilland sem reistur var á grunni Kaupþings í Lúxemborg. Eftir handtökuna var honum sagt upp.