Glitnir hefur komið upp svokölluðu „spurt og svarað” svæði á heimsíðu bankans þar sem leitast er við að svara þeim spurningum sem brenna á viðskiptavinum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Glitni.

Þar kemur fram að svörin snúa að ýmsum atriðum sem snerta daglegt líf viðskiptavina bankans, t.d. varðandi innistæðutryggingar, verðbréfasjóði og hlutabréf, húsnæðislán og bílalán.

„Það er eðlilegt að það vakni upp spurningar í því ástandi sem skapast hefur í efnahagslífinu,“ segir Már Másson, forstöðumaður samskiptasviðs Glitnis í tilkynningunni.

„Okkar fólk í þjónustuverinu, útibúum og annarstaðar í bankanum hefur staðið sig frábærlega í því að reyna leysa mál okkar viðskiptavina og svara spurningum. Við stefnum að því að uppfæra spurningarnar jafnóðum og þær berast. Við erum með þessu að koma til móts við upplýsingaþörf okkar viðskiptavina og um leið að létta álagi á okkar framlínufólki."