67 ára gamall karlmaður er nú í haldi lögreglunnar í Danmörku eftir að hafa í gær reynt að ræna sonum Lene Espersen, viðskipta- og efnahagsmálaráðherra Danmerkur.

Ekstra Bladet greinir frá því í dag að maðurinn  hafi reynt að ræna sonum Espersen af daggæsluheimili við Amager í Kaupmannahöfn í gærdag. Hann er nú í gæsluvarðhaldi og mun koma fram fyrir dómara í dag þarm sem saksóknari mun fara fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum.

Enn hefur ekki verið greint frá nafni mannsins og lögreglan í Kaupmannahöfn hefur lítið viljað gefa upp um málið þar sem það er enn í rannsókn. Ekki er vitað hvað vakti fyrir manninum.

Espersen, sem býr ásamt fjölskyldu sinni í  Dragør  við Amager, á tvo syni, þá Marcus og Robert en þeir voru báðir í daggæslu þegar atvikið átti sér stað. Hún staðfestir í samtali við Ekstra Bladet en vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Hún vill ekki gera of mikið úr málinu en segir að hún muni senda frá sér tilkynningu síðar.

Að sögn Ekstra Bladet mætti maðurinn á daggæsluheimili drengjanna seinnipartinn í gær og sagðist vera fjölskyldumeðlimur þangað kominn til að sækja þá. Eftir að hafa staðið í stappi við starfsfólk heimilisins og meðal annars reynt að nálgast annan drenginn og hrifsa hann burt, bölvaði hann Espersen í sand og ösku fyrir verk hennar í ríkisstjórn eftir því er Ekstra Bladet greinir frá.

Hann komst í burtu en var handtekinn um miðnætti í gær.