Það hafa skipst á skin og skúrir hjá landsliðsframherjanum Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur árið 2020. Í upphafi árs gekk hún til liðs við AC Milan og átti þar draumabyrjun áður. Heima fyrir var hún meðal markahæstu leikmanna í Íslandsmeistaraliði Breiðabliks og skipti þaðan aftur í atvinnumennsku, að þessu sinni með Le Havre í Frakklandi. Í nóvember skoraði hún síðan síðustu tvö mörk Íslands í undankeppni Evrópumótsins og tryggði liðinu farseðil til Englands 2022. Á sama tíma hefur heimsfaraldurinn litað árið með því að binda snöggan enda á dvölina í Mílanó, dagarnir í sóttkví og útgöngubanni eru álíka margir og hefðbundnir dagar. Í ofanálag voru smitprófin álíka mörg og mörk skoruð á árinu og er þá mikið sagt enda Berglind annálaður markahrókur.

Berglind sleit barnsskónum í Vestmannaeyjum en hún er af ætt Þórara. Skömmu eftir fæðingu hennar voru hin fornu Þór og Týr sameinuð undir merkjum Íþróttabandalags Vestmannaeyja og komst hún aldrei almennilega í kynni við ríginn sem þar ríkti á milli. Líkt og með margt afreksfólk var hún jafnt í fótbolta, handbolta og frjálsum íþróttum á sínum yngri árum og upp úr aldamótum rataði hún reglulega á síður Eyjafrétta fyrir árangur í hlaupum og boltakasti. „Ég varð stærri og sterkari á undan hinum stelpunum og skaraði því fram úr í öllum greinunum þremur þarna í upphafi. Bræður mínir voru líka á fullu í frjálsum og systir pabba á Vestmannaeyjamet í einhverjum greinum,“ segir Berglind Björg. Þrátt fyrir að vera efnileg komst eiginlega aldrei neitt annað að en fótboltinn.

„Fjölskyldan flutti upp á land árið 2004 og ég byrjaði í Hjallaskóla í Kópavogi. Á þessum tíma var ég alltaf í Manchester United treyju utan yfir peysu og lék mér úti á götu við að halda á lofti. Þá kom stelpa sem bjó ská á móti mér, spurði hvort ég vildi ekki koma á æfingu með Breiðabliki og síðan þá hefur maður eiginlega verið Bliki í gegn,“ segir Berglind en umræddur nágranni var Ásta Einarsdóttir sem átti eftir að leika með Breiðabliki og Fram. Þremur árum síðar lék Berglind, þá fimmtán ára gömul, í fyrsta sinn með meistaraflokki Breiðabliks í efstu deild sem þá bar nafnið Landsbankadeildin. Ári síðar var hún orðin fastamaður í liðinu og ferillinn farinn á flug.

Meginlandið fram yfir Skandinavíu

Atvinnumannaferill Berglindar hefur verið eilítið frábrugðinn „hefðbundnum“ ferli en stór hluti íslenskra atvinnukvenna hefur leikið í Skandinavíu. Framherjinn hefur aftur á móti leikið á meginlandinu í Hollandi, á Ítalíu og nú Frakklandi auk þess að hafa verið í bandaríska háskólaboltanum.

„Mér hefur staðið til boða að fara bæði til Noregs og Svíþjóðar en ég hef alltaf hugsað með mér að þetta sé svipaður bolti þar og heima. Ég hef aldrei verið spennt fyrir því og frekar langað að prófa og upplifa eitthvað nýtt. Þótt deildirnar í Skandinavíu séu betri þá hefur maður heyrt að boltinn og kúltúrinn sé frekar eins þannig það hefur ekki tosað í mig. Ég hef samt ekkert lokað þeim dyrum að fara þangað seinna meir.“

Fyrsta skipti Berglindar í atvinnumennsku á erlendri grund átti eftir að reynast ansi skrautleg en þá gekk hún í raðir Verona á Ítalíu eftir að tímabilinu lauk hér á Íslandi. Auk hennar fór Arna Sif Ásgrímsdóttir, varnarmaður Þórs/KA og góð vinkona Berglindar úr landsliðum, til liðsins.

„Ég fór fyrst út ein og Arna kom mánuði síðar. Fyrst um sinn var ég í íbúð í miðborg Verona og það var geggjað. Þegar Arna kom áttum við að fá íbúð saman en það dróst alltaf svo við enduðum á að vera í íbúð með einhverjum öðrum stelpum úr liðinu. Þar þurftum við að deila herbergi og rúmi en það hafði áður verið herbergi grískrar stelpu sem hafði farið heim í frí. Þegar hún kom aftur vorum við búnar að taka yfir herbergið þannig að hún svaf frammi á gangi, á einhverri ógeðslegri dýnu, og þurfti alltaf að koma inn í herbergið til að sækja fötin sín og dótið sitt. Þetta var algjört bíó,“ segir Berglind en ástandið batnaði ekki þegar þær stöllur fengu loksins íbúð fyrir sig.

„Það var nýtt vesen á hverjum einasta degi. Það var enginn hiti, rafmagnið var bara einhvern veginn og það var ekkert net. Við vorum báðar í fullu fjarnámi og ég held við höfum eytt einhverjum tugum þúsunda í að kaupa 4G til að geta lært. Klúbburinn var alltaf að segja að þetta væri alveg að fara að lagast en ekkert gerðist. Þegar við fórum heim í jólafrí vorum við búnar að ákveða að koma ekki aftur til baka, við skiluðum til dæmis ekki treyjunum eftir síðasta leikinn, og ég held að klúbburinn hafi vitað það líka því við fengum ekki launin okkar þótt allar hinar hafi fengið greitt. Um jólin fengum við síðan skilaboð um að við fengjum greitt þegar við kæmum aftur út.“ J

ólin 2017 einkenndust því af reglulegum samtölum milli Berglindar og Örnu þar sem þær ræddu nýjustu vendingar og skeyti sem bárust að utan. Þær fengu Kristin Björgúlfsson, framkvæmdastjóra Leikmannasamtaka Íslands, í málið og um skeið virtist sem Verona ætlaði í hart við þær. Málið leystist með því að þær fengu sig lausar.

„Við áttum fjögurra mánaða laun inni hjá þeim sem við gáfum eftir til að fá okkur lausar. Þrátt fyrir að við værum hér heima vorum við ennþá samningsbundnar þeim og máttum því ekki æfa með neinu liði fyrr en samningurinn kláraðist. Þannig að ég var bara hjá Gauja í Toppþjálfun að æfa á fullu og kom í geggjuðu formi inn í tímabilið,“ segir Berglind. Sá undirbúningur skilaði gullskó í Pepsi Max deildinni auk þess sem Breiðablik vann bæði deild og bikar.

Stirðasti atvinnumaður í heimi

Berglind lék með Blikum til ársins 2011 en færði sig þá um set í heimahagana og lék í Eyjum tvö sumur. Þaðan lá leiðin aftur til Blika en yfir vetrartímann árin 2012-2015 lék hún með háskólaliði Florida State University og nam þar félagsvísindi samhliða boltanum. Tíminn í Flórída átti síðan eftir að verða nokkuð afdrifaríkur en í upphitun fyrir leik lenti hún í meiðslum sem hrjá hana öðru hverju enn þann dag í dag.

„Við vorum að fara að keppa á móti Syracuse í New York í lok árs í einhverju tíu stiga frosti. Í upphitun teygði ég mig í boltann og rann alla leið niður í spíkat. Ég er held ég stirðasta manneskja í heimi, það er eiginlega til skammar, og reif allt aftan í læri við þetta. Skólinn var þannig að það var ekkert karlalið. Peningnum fyrir íþróttirnar er alltaf skipt á milli karla og kvenna þannig að við fengum alla upphæðina. Það var allt í toppstandi þarna, aðstaðan til fyrirmyndar og þegar við fórum í útileiki vorum við alltaf í einkaflugvél. Þetta var algjört atvinnumannalíf, þjálfarinn hikaði til dæmis ekki við að láta reka stelpur úr liðinu sem hann frétti af að hefðu verið eitthvað úti að skemmta sér,“ segir Berglind.

Sami þjálfari fékk síðan þá frábæru flugu í höfuðið að mögulega mætti gera vinstri bakvörð úr framherjanum. „Þegar ég var yngri í ÍBV var ég á miðjunni. Leikplanið snerist svolítið um að senda boltann fyrir og þar átti ég að mæta og skalla hann í netið. Þegar ég fór í Breiðablik var ég færð upp á topp en honum datt í hug að ég gæti verið bakvörður. Ég skil ennþá ekki af hverju. Þetta var reynt í einhverja þrjá leiki á undirbúningstímabilinu og ég var í bullinu enda kann ég ekkert að vera í bakverði. Þegar maður er senter kann maður ekkert mikið að verjast þannig að ég var komin aftur upp á topp eftir nokkrar vikur,“ segir hún og hlær.

Ítarlegt viðtal við Berglindi er að finna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .