Patrick Horton fékk félaga sína í heimsókn á laugardaginn og bað þá að hjálpa sér að byggja snjóhýsi í garðinum sínum. Að byggingunni lokinni tók Patrick nokkrar ljósmyndir af snjóhýsinu og skráði auglýsingu fyrir það á vef Airbnb.

Í auglýsingunni segir meðal annars að snjóhýsið sé „eftirsóttasta gistipláss borgarinnar” og að það sé algjörlega „handsmíðað og náttúrulegt”. Verð á nótt var þá 200 Bandaríkjadalir, eða um 26 þúsund krónur.

Airbnb tók auglýsinguna niður skömmu síðar, eftir að hafa tilkynnt Horton að húsnæðið uppfyllti ekki grundvallarskilyrði þjónustunnar. „Sjáðu til þess næst að staðurinn sem þú vilt auglýsa hafi aðgang að vatni, rafmagni og þaki sem getur ekki bráðnað,” sagði í tilkynningu stjórnenda síðunnar.

Þrátt fyrir að hafa þurft að taka auglýsinguna niður hlaut Horton 50 dala inneign fyrir næsta skipti sem hann gisti hjá Airbnb - „þar eð við kunnum vel að meta gæðasnjóhýsi”.