Ben Baldanza, sem sat í stjórn Wow air, frá árinu 2016 og fram í ágúst 2018, segist hafa reynt í tvö ár að þrýsta á um að Wow air myndi breyta um stefnu.

Baldanza er margreyndur í flugheiminum en hann var forstjóri lágjaldaflugfélagsins Spirit Airlines frá árinu 2006-2016. Félagið var mestan þann tíma að miklu leyti í eigi Indigo Partners, fjárfestingafélagi Bill Franke, sem átti í löngum viðræðum um kaup á Wow air í vetur.

Baldanza segir fimm ástæður vera fyrir því að Wow air féll í grein á Linkedin síðu sinni . Í athugasemd við greinina segist hann hafa reynt að þrýsta á breytingar í tvö ár. Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Agaleysi og ekki horft annað en Ísland

Í fyrsta lagi hafi verið skortur á aga í rekstri félagsins. Rekstrarkostnaður félagsins á einingu hafi vaxið eftir því sem það stækkaði, þegar hann hefði átt að lækka með aukinni stærðarhagkvæmni.

Í öðru lagi hefði átt að notast hefði átt við vinnuafl utan Íslands í meira mæli sem ekki sé á jafn háum launum. Baldanza segir Skúla Mogensen vera föðurlandsvin sem unni Íslandi heitt. En með að nýta ekki erlent vinnuafl hafi það aukið enn frekar á rekstrarkostnað félagsins.

Í þriðja lagi hafi ekki verið opnuð starfstöð erlendis til að vinna gegn árstíðasveiflu sem fylgi íslensku ferðamannatímabili. Skúli nefndi í viðtali við Áramót Viðskiptablaðsins og Frjálsrar Verslunar í desember 2017 að til skoðunar væri að opna slíka starfstöð.

Í fjórða lagi hafi Wow ekki undirbúið sig undir óvænt áföll þegar vel gekk með því að safna í varasjóði. Þegar nóg laust fé hafi verið í rekstrinum hafi það verið nýtt í að stækka flugvélaflotann sem hægt hafði verið að fjármagna á hagstæðan hátt með öðrum leiðum.

Breiðþoturnar tryggt fall Wow

Í fimmta lagi hafi Airbus A330 breiðþotur Wow air tryggt endalok félagsins. Stjórnendur Wow hafi misst sjónar á upphaflegu takmarki sínu, að vera lággjaldaflugfélag með hagkvæmar Airbus A321 flugvélar sem fljúgi á styttri flugleiðum. Félagið hafi farið að fljúga á vesturströnd Bandaríkjanna á breiðþotum sem hafi reynst afar kostnaðarsamt. Landfræðileg staða Íslands sé sterk. Með því að lenda í Keflavík á viðkomuleið yfir Atlantshafið á minni og hagkvæmari flugvélum en samkeppnisaðilarnir hafi félagið haft félagið haft samkeppnisforskot. En flækjustigið og erfiðleikar tengdir breiðþotum Wow air hafi að lokum átt hvað mestan þátt í gjaldþroti félagsins.

Vel reknum félögum gangi vel

Ekki sé hægt að kenna um vandræðum gagnvart einstaka ósáttum neytendum. Farþegar séu tilbúnir að fyrirgefa ýmislegt sé verðið á flugmiðanum rétt. Þá skýri erfitt samkeppnisumhverfi ekki fall Wow air enda gangi vel reknum flugfélögum á boð við Ryanair vel í þessu umhverfi með lægri kostnað en „Legacy“ flugfélög þurfi jafnan að takast á við.