Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að hann hafi haldið í alvöru að hægt væri að selja skuldabréfin frá Seðlabankanum í Lúxemborg í opnu og gegnsæju ferli. „Mér fannst lang eðlilegast að reyna að fara með þetta í opið útboð. Það reyndist ekki þegar farið var að skoða það af sérfræðingum mögulegt;" sagði Már á blaðamannafundi í morgun.

Greining Íslandsbanka hélt því fram í dag að óhjákvæmilega myndu aðilar á markaði verða tortryggnari á yfirlýsingar Seðlabankans á næstunni. Upphaflega hefði verið sagt að ekki stæði til að fara hratt í sölu íbúðabréfanna og það yrði þá gert í opnu ferli. Á endanum hefði þessu verið þveröfugt farið og samið um söluna á tíu dögum.

„Ef við hefðum farið með þetta í opið útboð hefði það líklega ekki miklu breytt um það að lífeyrissjóðirnir íslensku hefðu væntanlega verið með stærstu aðilunum þar í vegna þess að þeir eru einn af fáum sem geta uppfyllt skilyrðin. Kannski hefðu einhverjir útlendir aðilar gert það líka. En þetta var niðurstaðan að bestu manna yfirsýn," sagði Már Guðmundsson.

Á fundinum kom fram að viðræður hófust á föstudaginn og þeim lauk í gærkvöldi, sunnudag. Menn hefðu unnið alla helgina að þessu samkomulagi.

Þau skilyrði sem þurftu að vera fyrir hendi, samkvæmt Má, voru þau að viðkomandi aðilar þurftu að hafa burði til að gera þetta og eiga gjaldeyri utan gjaldeyrishafta. Þeir þurftu einnig að sætta sig við það skilyrði að þetta teldist ekki vera nýfjárfesting í skilningi reglna um gjaldeyrismál. „Það er að segja við vildum koma í veg fyrir að einhver keypti þessi bréf á þessum kjörum, seldi þau strax daginn eftir og færi úr landi og tæki þannig út hagnaðinn," útskýrði Már.

Vegna þess að þetta var lokað útboð og þurfti að gerast hratt vildi Seðlabankinn einnig finna lokaðan hóp sem var vel skilgreinanlegur og hægt væri að semja við á þessum stutta tíma. Til viðbótar voru sagðar ákveðna flækjur á samningnum sem lúta að því að ekki er búið að fá eignirnar afhendar út úr Avens og litlar líkur á því að eitthvað gæti komið upp og því þurfti að skilyrða kaupin því. „Það hentar ekki lokuðu útboði," sagði Már.