Það hafa eflaust einhverjir Íslendingar lent í því að dyrabjöllunni er hringt á kvöldin og fyrir utan standa starfsmenn innheimtudeildar RÚV og spyrja hvort það sé sjónvarp á heimilinu. Og þegar farið er til dyra með poppskál í hendi og ómurinn og glampinn af sjónvarpinu fyllir íbúðina er erfitt að neita fyrir það.

En það er ekki bara á Íslandi sem innheimtudeildir ríkissjónvarpa eru aðgangsharðar því á vef Deutche Welle kemur fram að innheimtudeild hinnar þýsku stöðvar GEZ hefur ítrekað rukkað stærðfræðinginn Adam Ries um afnotagjöld.

Það væri svo sem ekki frásögu færandi nema hvað að Ries lést fyrir um 450 árum. Þrátt fyrir það hefur innheimtudeild GEZ sent Ries, sem væri nú 517 ára væri karlinn enn á lífi, rukkanir um afnotagjöld. Þá hafa fylgt ítrekanir og nú síðast hefur bæst við lögfræðikostnaður vegna kröfunnar.

Staðreynd málsins er sú að Ries keypti hús í Þýskalandi árið 1525 og virðist einhverra hluta vegna enn vera skráður íbúi þar samkvæmt GEZ. Í dag er starfræktur í húsinu minningasjóður til heiðurs honum en starfmenn sjóðsins segjast þess fullvissir að Ries eigi ekki og noti ekki sjónvarp.

„Við höfum margoft fengið innheimtubréf sem stílað er á Adam Ries þar sem farið er fram á að hann greiði afnotagjöld,“ segir Annegret Muench, framkvæmdastjóri sjóðsins í samtali við Deutche Welle. Hún segir að hún hafi nokkrum sinnum haft samband við sjónvarpsstöðina og reynt að sannfæra starfsmenn innheimtudeildarinnar að Ries hafi yfirgefið þennan heim fyrir rúmlega fjórum öldum og hafi að öllum líkindum ekki átt sjónvarp.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem GEZ reynir að rukka hina látnu um afnotagjöld. Í fyrra barst skóla sem nefndur er eftir ljóðskáldinu Friedrich Schiller bréf frá stöðinni, sem stílað var á Schiller, þar sem hann var vinsamlegast beðinn um að gefa upp fjölda útvarps- og sjónvarpstækja á heimilinu og greiða af þeim afnotagjöld.

Því má síðan við þetta bæta að Shiller er höfundur ljóðsins Óðurinn til gleðinnar og þar með höfundur að þjóðsöng ESB sem er tekin úr fjórðu hreyfingu 9. symfóníu Beethovens.

Það er því ljóst að þýskir embættismenn gefa engan grið.