FIH hefur gengið í gegnum tvö formleg söluferli frá því að Kaupþing féll og Seðlabanki Íslands eignaðist veðkröfu í bankanum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Það fyrra átti sér stað rétt eftir fall Kaupþings og var formfest með samkomulagi milli skilanefndar Kaupþings og Seðlabankans. Það samkomulag var undirritað þann 19. október 2008. Í því fólst að Seðlabankinn myndi hafa  umsjón með söluferlinu og ráða til þess ráðgjafa frá bandaríska fjárfestingabankanum JP Morgan.

JP Morgan setti í kjölfarið í gang uppboðsferli þar sem haft var samband við alls átta norræna og alþjóðlega banka og aðra líklega fjárfesta til að kanna hug þeirra gagnvart því að kaupa FIH. Einungis eitt tilboð barst sem var ekki talið ásættanlegt. Því var gert hlé á sölu bankans á árinu 2009.

Seinna söluferlið

Svo virðist vera sem að nýtt söluferli hafi hafist á fyrri hluta ársins 2010, þótt það hafi farið afar hljótt. Fyrsta formlega staðfestingin á því kom ekki fram fyrr en 8. september síðastliðinn þegar forstjóri FIH staðfesti að bankinn væri til sölu í frétt á heimasíðu hans.

Viðskiptablaðið hefur hins vegar heimildir fyrir því að alls fjórir hópar hafi skilað inn tilboðum í FIH þann 28. júlí síðastliðinn. Tveir hópanna vildu kaupa bankanna allan en tveir vildu kaupa hluta í honum. Af þeim var tveimur hópum hleypt áfram í seljendaferlinu. Annars vegar var um að ræða hóp sem samanstóð af dönsku

lífeyrissjóðunum ATP og PFA og danska fjárfestinum Christian Dyvig. Folksam bættist síðar inn í þann hóp. Þetta er kaupendahópurinn sem að lokum keypti FIH. Hinn hópurinn var samansettur af breska fjárfestingasjóðnum Triton og litlum dönskum lífeyrissjóðum. Báðum hópunum var gefin frestur fram til 16. september til að leggja fram tilboð. _____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .