Saga Capital tapaði um 1,6 milljörðum króna á síðasta ári, sem er litlu minna tap en árið áður. Félagið er nú í slitameðferð eftir að Héraðsdómur Norðurlands úrskurðaði þar um og Hæstiréttur staðfesti í síðasta mánuði. Í janúar og febrúar síðastliðnum greiddi Saga niður skuldir sem námu 140 milljónum króna. Eftir stendur víkjandi lán sem stóð í um 814 milljónum við síðustu áramót auk annarra skulda sem nema um 560 milljónum.

Ársreikningi Sögu Capital var skilað til ársreikningaskrár 25. júní síðastliðinn. Í skýrslu stjórnar segir að andvirði af sölu eigna hafi verið notað til þess að greiða niður skuldir félagsins, aðrar en víkjandi lán og þær sem eru skilgreindar sem aðrar skuldir. Bent er á að samkvæmt ársreikningi á félagið nægjanlegar eignir til þess að greiða allar skuldir að frádregnu víkjandi láninu. Eigið fé Sögu um áramót var neikvætt um 751 milljón.

Í ársreikningnum kemur meðal annars fram að eigendur félagsins reyndu í fyrra að selja Sögu í heild. Þegar það gekk ekki var reynt að auka eigið fé með gerð nauðasamninga. Afturköllun FME á starfsleyfi brustu hins vegar samningar þess efnis.