„Til að æðsti dómstóll þjóðarinnar geti þjónað hlutverki sínu má hann ekki vera endalaust upptekinn af smámálum. Hann má heldur ekki starfa deildaskiptur eins og Hæstiréttur Íslands gerir. Til að málunum fækki er nauðsynlegt að stofna millidómstig sem annast myndi málskot í smærri málum.“

Þetta segir Jón Steinar Gunnlaugsson, sem nýlega lét af störfum sem hæstaréttardómari, í viðtali við Morgunblaðið í dag. Þar fjallar Jón Steinar m.a. um þær breytingar sem hann telur að þurfi að gera á Hæstarétti og eins greinir hann frá því hvernig einstaka dómarar við réttinn settu sig upp á móti því og höfðu í hótunum við hann þegar hann sótti um stöðu dómara við réttinn árið 2004.

„Tólf dómarar sitja í Hæstarétti og þeir fjalla um flest mál í fjórum þriggja manna deildum. Hvað á sá dómari að gera sem fær til meðferðar mál ásamt tveimur öðrum og sér að hálfum mánuði áður hafa þrír aðrir dómarar við réttinn komist að niðurstöðu um sama sakarefni sem hann er ósammála,“ segir Jón Steinar þegar hann fjallar um Hæstarétt.

„Er þá komið fordæmi? Hvernig geta þrír af tólf hæstaréttardómurum kveðið upp dóm sem kallast getur fordæmi? Það er ekkert vit í því. Ef þrír dæma gætu níu aðrir dómarar verið ósammála þeim. Ég tel að breyta þurfi reglum um skipun dómara og vil einnig fækka dómurum við réttinn umtalsvert, til dæmis niður í fimm. Það er skilyrði að mínu mati að þeir dæmi allir í öllum málum. Þannig myndast fordæmi. Í því felst fyrirheit um að sömu menn muni komast að sömu niðurstöðu um sama sakarefni ef á það reynir í nýju máli. Að forminu til væri hægt að hnekkja fordæminu en þar yrði samt á brattann að sækja.“

Aðspurður um það hvort hann hyggist skrifa um samskipti milli hæstaréttardómara segist Jón Steinar hafa áhuga á því. Hann muni þó virða trúnað en það sé nauðsynlegt að segja frá „ýmsu sem gerðist í tengslum við það þegar ég var skipaður dómari fyrir átta árum og hvernig ég tel að atburðir sem þá urðu hafi sett mark sitt á starfsumhverfi mitt við réttinn,“ segir Jón Steinar.

„Þegar ég sótti um embætti hæstaréttardómara var Hæstiréttur umsagnaraðili um þá sem sóttu um. Ýmsir af dómurum Hæstaréttar höfðu hvatt mig til að sækja um dómarastarfið en þegar ég loks sótti um það árið 2004 var komið annað hljóð í strokkinn hjá þessum sömu mönnum,“ segir Jón Steinar.

„Kannski töldu þeir að hinn fyrirferðarmikli Davíð Oddsson, persónulegur vinur minn, vildi hafa afskipti af dómstólunum og að skipan mín væri liður í þeirri áætlun hans. Hvílíkur hugarburður! Ef til vill byggðist andúð þeirra líka á gagnrýni sem ég hafði haft uppi á dómaraverk þeirra“

Þá segir Jón Steinar að sumir dómaranna hefðu reynt að fá aðra til að sækja um stöðuna til að hindra að hann yrði skipaður.

„Einn þeirra hafði meira að segja í hótunum við mig og sagði að ég yrði skaðaður með umsögn Hæstaréttar ef ég drægi ekki umsókn mína til baka,“ segir Jón Steinar.

„Umsögnin sem átta dómarar af níu veittu um umsækjendur þetta sumar var svo barnalega hlutdræg gegn mér að öllum sem til þekktu varð ljóst að hér var verið að misbeita umsagnaraðild réttarins til að reyna að tryggja að skipaður yrði lögfræðingur sem yrði hinum þóknanlegur. Mér fannst þetta bera þess vott að við réttinn hafi starfað dómarar sem voru farnir að líta á sig sem eins konar eigendur hans og aðrir með minni burði hafi fylgt þeim í blindni. Þetta var ljótur leikur og andstæður lögum.“