Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur sýknaður af kröfu Landsbankans um greiðslu skuldar vegna notkunar VISA-korts. Skuldin hafði verið greidd en málinu var engu að síður stefnt fyrir dóm til innheimtu vaxta og áfallins kostnaðar.

Í mars á þessu ári var manninum sent innheimtuviðvörum af Motus vegna skuldar vegna notkunar greiðslukortsins. Þá nam skuldin tæplega 504 þúsund krónum auk 5.900 króna innheimtuþóknunar. Í lok mánaðarins greiddi maðurinn 100 þúsund inn á skuldina.

Þann 1. apríl barst manninum annað bréf frá Motus. Eftirstöðvarkröfunnar höfðu þá lækkað um 100 þúsund en innheimtukostnaður tvöfaldast. Tekið var fram að dráttarvextir ásamt kostnaði og innheimtuþóknun yrði innheimt á kortið. Hægt var að greifa kröfuna í banka, netbanka eða greiða inn á kortið í netbanka.

Samkvæmt VISA yfirliti, dagsettu 2. maí, nam skuldin rúmlega 443 þúsund krónum að öllu meðtöldu. Fimm dögum síðar var manninum sent bréf um að heimild til notkunar kortsins hefði verið afturkölluð, kortinu lokað og að málið yrði sent Lögheimtunni til innheimtu. Innheimtubréf frá Lögheimtunni var sent manninum 8. maí en þá nam krafan 511 þúsund krónum.

Þann 11. maí þessa árs greiddi maðurinn kröfu í heimabanka sínum vegna málsins og nam upphæðin rúmlega 443 þúsund krónum. Þrátt fyrir það var höfðað mál til innheimtu kröfunnar en stefna málsins var dagsett 4. júní.

Samskiptaleysi milli bankans og Lögheimtunnar

Maðurinn krafðist sýknu. Bréf Lögheimtunnar hefði borist honum þann 14. maí en í millitíðinni hefði hann greitt kröfuna í heimabanka sínum. Eina krafan sem bankinn gæti því átt hann væru dráttarvextir frá upphafi maí til greiðsludags. Þeir gætu aðeins numið rúmum þúsund krónum en ekki stefnufjárhæðinni. Þá mótmælti hann innheimtukostnaði og málskostnaði bankans en þær upphæðir hefðu tekið sífelldum breytingum og verið alltof háar.

„Í bréfi [Landsbankans] til [mannsins], dags. 7. maí 2019, kemur fram: „Gjaldfallin skuld með vöxtum og kostnaði, nemur í dag kr. 443.152, auk áfallandi vaxta og kostnaðar.“ Þegar [maðurinn greiddi] kröfuna fjórum dögum síðar eða þann 11. maí 2019, kemur fram á útprentaðri kvittun að um sé að ræða upphaflegan höfuðstól, 443.152 krónur, og engir dráttarvextir, kostnaður eða annar vanskilakostnaður hafi þá fallið á kröfuna,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Að mati dómsins komu ekki fram nein svör af hálfu Landsbankans hvernig maðurinn gat greitt kröfuna í netbanka á þessum tíma og ekki væri sýnt fram á að maðurinn hefði mátt vita af því að krafan hefði verið send í lögheimtu.

„Mál þetta virðist mega rekja til verklags milli [Landsbankans] og Lögheimtunnar um það hvenær innheimta kröfunnar færist formlega yfir, sem [maðurinn] getur ekki borið ábyrgð á. Um það verklag liggur einnig fyrir að kröfunni er stefnt fyrir dóm í júní 2019, án þess að framangreindri [443.152 króna greiðslu] sé í nokkru getið,“ segir í dóminum.

Manninum var með vísan til alls þessa ekki gert að greiða þann kostnað sem fallið hafði á kröfuna vegna dráttarvaxta og innheimtu þar sem málið var rakið til handvammar bankans. Þá var bankanum að endingu gert að greiða manninum málskostnað, 248 þúsund krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.