Skipstjórar tveggja norskra loðnuveiðiskipa hafa verið ákærðir fyrir að gefa upp minni heildarafla loðnu en raun bar vitni. Samanlagt munaði 245 tonnum á heildaraflanum og því sem skipstjórarnir gáfu upp. Hefði loðnan sem þeir reyndu að koma undan öll farið í bræðslu nema verðmæti þess sem undan var skotið um 30 milljónum en um 40 milljónum hefði loðnan verið fryst. Frá þessu greinir í Morgunblaðinu í dag. Lögreglustjórinn á Eskifirði fer fram á að skipstjórarnir verði dæmdir til refsinga og að sektirnar renni í Landhelgissjóð Íslands.

Skipstjórarnir eru ákærðir fyrir að hafa brotið gegn lögum og reglugerð um veiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Brot gegn lögunum varða sektum að lágmarki 400 þúsund krónum en að hámarki 4 milljónum. Sé um stórfellt eða ítrekað ásetningsbrot að ræða er heimilt að gera allan afla skipsins og öll veiðarfæri um borð í skipinu upptæk.