Fundur 20 stærstu iðnríkja heims hófst í morgun í Hamborg í Þýskalandi, eftir nótt átaka aðgerðarsinnaðra mótmælanda við lögreglu. Þurfti lögreglan að beita háþrýstislöngum og piparúða til að stöðva mótmælendur sem virtu að vettugi ákvarðanir valdstjórnarinnar um hvar mótmælin gætu farið fram.

Reyndu aðgerðarsinnar undir forystu hópa anarkista og andstæðinga fríverslunar af ýmsu tagi að taka yfir friðsæl mótmælin, sem áttu sér stað á torgi í borginni, og brjótast í átt að fundarstaðnum. Fundurinn er haldinn í ráðstefnumiðstöð í miðborg Hamborgar.

Helstu leiðtogar heims undir mikilli öryggisgæslu

Ráðstefnumiðstöðin er hins vegar undir mjög viðamiklu öryggiseftirliti enda þar samankomnir helstu leiðtogar 20 öflugustu ríkja heim, þar á meðal gestgjafinn Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Donald Trump, Bandaríkjaforseti og Vladimir Putin Rússlandsforseti, en þetta er fyrsti fundur þessara tveggja þjóðarleiðtoga.

Búist er við allt að 100 þúsund mótmælendum í borginnni og voru 20 þúsund lögreglumenn til staðar til að gæta öryggis á þeim 30 skráðu mótmælastöðum sem leyfi hafði verið fengið fyrir. Er um stærstu lögregluaðgerð í sögu Hamborgar. Fékk lögreglan til afnota 45 háþrýstibyssur auk þess sem flugbann var sett yfir hluta borgarinnar.

Aðgerðarsinnar fóru út fyrir skilgreind mótmælasvæði

Harður kjarni ýmissa hópa vinstrisinnaðra aðgerðarsinna höfðu heitið þess að reyna að trufla fundinn og hugðust þeir reyna að hefta frjálsa för fundarmanna með því að setja upp vegatálma á þremur mikilvægum punktum í borginni fyrir samgöngur á milli fundarstaða, flugvallarins og hótela.

„Aðalatriðið er að núna á fundurinn sér stað á ný, eftir fundinn í Brisbane, í lýðræðisríki,“ segir Wolfgang Schmidt, stjórnmálamaður í Hamburg sem kom að undirbúningi fundarins, en síðustu tveir fundir hafa verið í Tyrklandi og Kína.

„Við viljum tryggja að mótmæli og andstæð sjónarmið fái að heyrast, en einnig þarf að tryggja öryggi, sem er áskorun með 42 mikilvægustu þjóðarleiðtoga og fjármálaráðherra samankomna á einum stað.“

Tveir lögreglumenn lentu á sjúkrahúsi

Þurfti lögreglan að handtaka suma aðgerðarsinna á fimmtudagskvöld, eftir átök sem leiddu til þess að 15 lögreglumenn meiddust, þar af þurftu tveir að fara á sjúkrahús. Jafnframt urðu húsgagnaverslun og banki fyrir skemmdum.

„Þessi vika er um að gera aðhaldsstefnu Angelu Merkel alþjóðlega í gegnum G-20 hópinn," fullyrðir Jan van Aken, þingfulltrúi öfga-vinstri flokksins Die Linke, að því er Washington post greinir frá. „Enginn mótmælandi getur ákveðið hvort eða hvar þjóðarleiðtogar komi saman í Þýskalandi í boði kanslarans,“ sagði hins vegar Thomas de Maizière, innanríkisráðherra Þýskalands.