*

föstudagur, 4. desember 2020
Innlent 7. júní 2012 17:15

Reyndu að trufla samstöðufund útvegsmanna - myndir

Hópur fólks reyndi að trufla ræðuhöld á samtöðufundi LÍÚ fyrir skömmu með frammíköllum.

Ritstjórn
vb.is

Andstæðingar fiskveiðistjórnunarkerfisins reyndu hvað þeir gátu að trufla samstöðufund LÍÚ á Austurvelli fyrir skömmu en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Sem kunnugt er hafði Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) boðað til samstöðufundar á Austurvelli í dag. um 70 skip eru nú í Reykjavíkurhöfn en þau sigldu þangað í nótt og í morgun með áhafnir sínar til að taka þátt á fundinum. Um 1.500 – 2.000 manns hafa nú safnast saman á Austurvelli þar sem frumvörpum ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum er mótmælt.

Þar hefur einnig safnast saman hópur af fólki til að mótmæla samstöðufundinum og LÍÚ. Blaðamaður Viðskiptablaðsins er staddur á Austurvelli og segir að þeir mótmælendur hafi reynt með óhljóðum að trufla ræðuhöld auk þess sem þeir hafi kveikt á því sem virðist vera reyksprengja eða blys til að trufla fundinn. Frummælendur kláruðu þó ræður sínar. Rétt er að taka fram að sjómenn kveiktu einnig á blysum í lok fundarins.

Fyrir utan þessi atviki hefur fundurinn enn sem komið er farið nokkuð friðsamlega fram. Helst er þó tekist á með orðum á milli þeirra sem sækja fund LÍÚ og þeirra sem þarna eru til að mótmæla LÍÚ. Lögreglan er með viðbúnað á svæðinu og hefur m.a. girt af Alþingishúsið. Þess utan hefur þingpöllum einnig verið lokað.

Fyrir Alþingi liggja nú tvö frumvörp, annars vegar frumvarp um veiðileyfagjaldið svokallaða og  hins vegar frumvarp um fiskveiðistjórnun sem í stuttu máli felur í sér afnám núverandi kerfis.

Hér að neðan má sjá myndir frá fundinum sem teknar voru fyrir skömmu.

Fundurinn fór vel af stað. Um 1.500 - 2.000 manns höfðu safnast fyrir á Austurvelli.

Reynt var að trufla fundinn með því að kveikja á reykblysum.

Fundarmenn létu frammíköll og reyk ekki trufla sig meira en svo að þeir stóðu áfram á Austurvelli.

Hópur einstaklinga sem safnaðst hafði saman til að mótmæla fundi LÍÚ kom meðal annars fyrir þessum sovéska fána.